141. löggjafarþing — 76. fundur,  31. jan. 2013.

orð forseta Íslands um utanríkismál.

[10:56]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir svarið. Ég fékk reyndar ekki á hreint hver það er sem mótar stefnu Íslands í utanríkismálum, hvort það er forseti Íslands með sínum áhrifum eða hvort það er hæstv. utanríkisráðherra.

Í ræðu við setningu Alþingis 2011 sagði forseti Íslands að með nýrri stjórnarskrárbreytingu mundi vald hans aukast. Það virðist líka vera álit sérfræðinga að vald forseta aukist á kostnað valds Alþingis.

Ég vil spyrja hæstv. utanríkisráðherra hvort hann styðji þær breytingar sem er verið að gera á stjórnarskránni sem veikja Alþingi með tvennum hætti, gagnvart forsetanum og eins gagnvart þjóðaratkvæðagreiðslum. Er hann sáttur við það að Alþingi sé veikt á þennan hátt? Telur hann að það hafi verið vandamál hvað Alþingi hafi verið öflugt á undanförnum árum? En ég vildi sérstaklega spyrja hann hver móti stefnu Íslands í utanríkismálum.