141. löggjafarþing — 76. fundur,  31. jan. 2013.

orð forseta Íslands um utanríkismál.

[10:57]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Stefnu Íslands í utanríkismálum mótar Alþingi og forseti Íslands fer að þeirri stefnu. Þannig er stjórnarskráin. Að því er varðar þær breytingar sem við höfum rætt á stjórnarskránni og hvernig þær hafa áhrif á vald forseta Íslands þá liggur það fyrir að hin upphaflega gerð stjórnarskrárdraganna sem forseti Íslands gerði að umræðuefni í ræðu sinni hér fól alveg óumdeilanlega í sér að vald forsetans yrði aukið. Það er ekkert leyndarmál. Ég hef sagt það opinberlega í fjölmiðlum. Ég tók undir þá skoðun og túlkun forseta Íslands sem þar kom fram, svo að það liggi algjörlega ljóst fyrir.

Ég tel hins vegar að þær breytingar sem liggja núna fyrir í formi tillagna frá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd séu mjög til bóta varðandi það. Hitt lá alveg kýrskýrt fyrir í mínum huga, að við myndun ríkisstjórna til dæmis yrði forseta Íslands fært mjög mikið vald og hugsanlega meira en rétt væri, en frá því er horfið með þeim breytingartillögum sem liggja fyrir.