141. löggjafarþing — 76. fundur,  31. jan. 2013.

niðurstaða EFTA-dómstólsins og afstaða innanríkisráðherra.

[10:59]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Frú forseti. Icesave-málið hefur verið talsvert til umræðu upp á síðkastið eftir glæsilegan dóm sem féll Íslandi í hag sl. mánudag. Ég veit að hæstv. innanríkisráðherra tengist þessu máli töluvert og kom mikið við sögu þess. Ef við flettum upp fréttum sem tengjast þessu máli sl. ár þá kemur hans nafn æðioft upp í tengslum við ýmislegt. Hæstv. ráðherra sagði meðal annars af sér sem heilbrigðisráðherra vegna þessa máls á sínum tíma.

Nú hafa margir forustumenn ríkisstjórnarinnar tjáð sig um þetta mál og síðast í gær hv. þm. Árni Þór Sigurðsson sem sagði, með leyfi forseta:

„Röð atvika, atburðarás yfir langan tíma, hefur leitt til þeirrar ánægjulegu stöðu sem við erum í í þessu máli nú. […]

Gæfa þjóðarinnar er hins vegar hvernig atburðarásin varð fyrir tilviljun í fullkominni óvissu að við sýndum í verki vilja til lausna …“

Þarna er látið að því liggja að einhver tilviljun hafi valdið því að Ísland fékk svo glæsilegu niðurstöðu sl. mánudag.

Hæstv. innanríkisráðherra sagði af sér embætti sem heilbrigðisráðherra á sínum tíma, eins og ég sagði áðan. Mig langar að spyrja hæstv. innanríkisráðherra hvort hann sé sammála því að þetta hafi verið tilviljun og hvort það hafi verið tilviljun að hæstv. innanríkisráðherra sagði af sér og fór úr ráðuneyti heilbrigðismála á sínum tíma. Ef ekki, hvaða aðrar ástæður bjuggu þá þar að baki?