141. löggjafarþing — 76. fundur,  31. jan. 2013.

ástandið á Landspítalanum.

[11:04]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Nú berast okkur daglega fréttir af mjög alvarlegu ástandi á Landspítalanum. Þó er rétt að taka fram að bæði starfsfólk og stjórnendur spítalans hafa staðið sig afskaplega vel við mjög erfiðar aðstæður.

Það kemur fram í viðtali við forstjóra Landspítalans í Morgunblaðinu á mánudaginn að hætta hefur þurft við tugi aðgerða og meðferða á hverjum degi á undanförnum vikum. Það kemur jafnframt fram í úttekt Morgunblaðsins þar sem er viðtal við Ólaf Baldursson, framkvæmdastjóra lækninga á Landspítalanum, að nú sé búið að virkja viðbragðsáætlun spítalans og hann settur á svokallað grænt óvissustig í samráði við almannavarnir og að staðan sé það alvarleg að hún sé metin daglega. Það kemur líka fram í þessari úttekt að í raun liggja 47 einstaklingar á Landspítalanum sem þegar eru komnir með vistunarmat en þurfa að bíða eftir að komast að á hjúkrunarheimilum.

Viðræður hafa verið á milli stjórnenda sveitarfélagsins Snæfellsbæjar og hæstv. ráðherra og velferðarráðuneytisins í alllangan tíma eða frá því að nýtt glæsilegt hjúkrunarheimili var tekið í notkun þar á síðasta ári. Þar voru byggð tólf hjúkrunarrými en einungis heimild fyrir tíu. Það segir sig sjálft að skynsamlegra er að nýta þau hjúkrunarrými sem þegar eru til og klár til notkunar vegna þess að það kostar margfalt minna, um tvöfalt eða þrefalt minna, að nýta þau en láta viðkomandi einstaklinga liggja á Landspítalanum, ég tala nú ekki um í því ástandi sem þar er.

Því vil ég spyrja hæstv. velferðarráðherra: Er þess að vænta að hæstv. ráðherra geti gefið skýr svör um þetta mál, hvort tekin hafi verið ákvörðun um að nýta þau hjúkrunarrými sem eru ónýtt á Jaðri í Ólafsvík?