141. löggjafarþing — 76. fundur,  31. jan. 2013.

skattumhverfi lítilla og meðalstórra fyrirtækja.

[11:29]
Horfa

Róbert Marshall (U):

Virðulegur forseti. Á Íslandi er of lítill gaumur gefinn að litlum og meðalstórum fyrirtækjum. Í McKinsey-skýrslunni svokölluðu kom fram að við búum við mjög einhæft og fábreytt atvinnulíf og því þurfum við að breyta.

Um 90% íslenskra fyrirtækja eru skilgreind sem svokölluð örfyrirtæki, þ.e. með á bilinu einn til níu starfsmenn. Í fyrra voru 62 þús. lítil fyrirtæki skráð og er talið að um helmingur þeirra sé með virka starfsemi eða um 30 þús. talsins.

Við þurfum að huga betur að þessu. Á erlendum vettvangi er það gert. Innan Evrópusambandsins er hlutfallsleg skipting fyrirtækja svipuð því sem gengur og gerist á Íslandi. Evrópusambandið hefur hins vegar gert sér grein fyrir því að lítil og meðalstór fyrirtæki eru burðarásinn í evrópsku atvinnulífi og leggur áherslu á að ríki innan sambandsins vinni markvisst að því að styrkja rekstrarumhverfi lítilla fyrirtækja. Í efnahags- og atvinnumálum hefur sambandið tileinkað sér regluna „think small first“ og miðað við að taka tillit til sérstöðu og þarfa lítilla fyrirtækja við gerð laga og reglugerða. Aðgerðirnar hafa meðal annars miðað að því að einfalda regluverk, draga úr samkeppni ríkisrekinna fyrirtækja við lítil fyrirtæki, auka markvisst aðgengi fyrirtækjanna að fjárfestum og fjármögnun, skapa almennt rekstrarumhverfi sem hvetur til nýsköpunar, koma á samvinnu milli stjórnsýslunnar og lítilla fyrirtækja við gerð reglugerða og flýta greiðslum hins opinbera til fyrirtækja sem þeir kaupa þjónustu af, sem er mjög mikilvægt vegna þess að það getur skipt sköpum fyrir fyrirtæki vegna þess að ríkið hagar sér stundum eins og maddama í þessum efnum og dregur greiðslur sem getur komið litlum fyrirtækjum mjög illa. Auk þess beitir Evrópusambandið sér fyrir því að samræma virðisaukaskattsþrep. Fjöldamörg önnur atriði væri hægt að telja upp.

Það er nauðsynlegt fyrir Ísland að móta sér stefnu í þessum efnum og hafa ávallt hugfast við allar breytingar á regluumhverfi fyrirtækja hvaða áhrif þær kunni að hafa á (Forseti hringir.) lítil og meðalstór fyrirtæki.