141. löggjafarþing — 76. fundur,  31. jan. 2013.

skattumhverfi lítilla og meðalstórra fyrirtækja.

[11:41]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir ágæta umræðu. Hæstv. ráðherra nefndi umfang verkefnisins sem ríkisstjórnin hefði staðið frammi fyrir og að það þyrfti að taka með í reikninginn og nefndi að farin hefði verið blönduð leið tekjuöflunar og niðurskurðar. Það sem vantar inn í þetta hjá hæstv. ráðherra og hjá ríkisstjórninni er þriðji þátturinn sem er verðmætasköpunin. Það er vandamálið. Menn hafa gleymt að huga í nægjanlegum mæli að mikilvægi verðmætasköpunar þegar kemur að því að fást við það verkefni sem hæstv. ráðherra lýsti.

Hæstv. ráðherra nefndi verkefnið Allir vinna og árangurinn af því. Eins og hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson benti á hlýtur það að vera staðfesting þess að æskilegt sé og það geti jafnvel skilað ríkinu meiri tekjum að einfalda skattkerfið og í sumum tilvikum að lækka skatta. Fyrst átakið Allir vinna virkaði, á það sama þá ekki við annars staðar? Er ekki hægt að útfæra þetta og láta það ná til fleiri fyrirtækja og fleiri tegunda rekstrar?

Hæstv. ráðherra nefndi ákveðna sjóði til nýsköpunar og endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar. Ég er alveg sammála ráðherranum um það að mikilvægt sé að viðhalda slíkum styrkjum og ívilnunum enda eru þær allar í samræmi við það sem framsóknarmenn hafa lagt áherslu á og innleitt í gegnum tíðina. Þetta er í rauninni bara spurning um að fylgja því eftir sem framsóknarmenn hafa komið á varðandi nýsköpun og ívilnanir.

Hér hlær hv. þm. Magnús Orri Schram og kemur þar upp um fávisku sína þegar kemur að stjórnmálasögunni og fyrri ríkisstjórnum. Fulltrúar núverandi ríkisstjórnar virðast ekki einungis hafa gleymt því að þeir sátu í hrunstjórninni heldur hafa þeir líka gleymt öllu sem gerðist þar á undan eða misskilið það að minnsta kosti. Það er þá í samræmi við gríðarlegan misskilning (Forseti hringir.) hv. þingmanns varðandi Evrópusambandið ef hann heldur að það felist atvinnusköpun í því að ganga í ESB. Hann ætti að skoða atvinnuleysistölur þaðan.