141. löggjafarþing — 76. fundur,  31. jan. 2013.

skattumhverfi lítilla og meðalstórra fyrirtækja.

[11:44]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég ætla ekki að taka af framsóknarmönnum það sem þeir eiga og mega eiga. Ég held að allir stjórnmálamenn sem einhvern tíma hafa komið að stjórn landsins og verið í stjórnarandstöðu vilji gera vel og framsóknarmönnum tókst sumt ágætlega og annað ekki. Svo tökumst við á um leiðirnar en ég held að við séum öll með sömu markmiðin.

Það er mikilvægt að taka fram í þessari umræðu að fólki á vinnumarkaði hefur fjölgað. Atvinnuleysi hefur minnkað. Hér er beinlínis farið rangt með í ræðustól Alþingis þegar menn halda öðru fram. Þessi ríkisstjórn hefur umfram annað hugað að aukinni verðmætasköpun í landinu enda er Ísland líklega eitt af fáum ríkjum í Evrópu sem er með einhvern hagvöxt af viti, hagvöxt sem telur. Þannig er staðan hér á landi. (Gripið fram í.)

Frú forseti. Við erum búin að leggja allan okkar kraft í það að ná tökum á ríkisfjármálunum og það hefur tekist. Hvers vegna höfum við lagt svo mikið kapp á það? Vegna þess að það er forsenda þess sem koma skal, forsenda þess að atvinnulíf í landinu geti haft aðgang að góðum lánskjörum til þess að geta starfað og stækkað og til þess að koma fjárfestingum af stað hér. Það er forsenda þess að menn geti farið í losun fjármagnshafta. Það er forsenda þess að þétt vaxtarplan geti farið af stað fyrir Ísland allt. Þess vegna hefur verið lögð svona mikil áhersla á að ná tökum á ríkisfjármálunum og það hefur tekist og það verður ekki af þessari ríkisstjórn tekið. Það hefur verið erfitt en það hefur tekist.

Frú forseti. Hv. þm. Magnús Orri Schram kom að öðru atriði sem er algjört lykilatriði. Okkur hefur tekist að ná tökum á ríkisfjármálunum en við erum enn í vanda út af gjaldmiðlinum. Þetta er umræðuefni sem mér finnst stjórnmálaflokkar á Íslandi, aðrir en Samfylkingin, við höfum þó lagt fram einhverjar tillögur í því efni, skauta býsna létt fram hjá. Þetta atriði, sterkur gjaldmiðill, er líka meðal grundvallarþátta í hagstæðum skilyrðum fyrir íslenskt atvinnulíf og (Forseti hringir.) þess vegna verðum við að fara almennilega í þá umræðu með hvaða hætti við sjáum þeim málum fyrirkomið til framtíðar litið. Framsóknarflokkurinn verður líka að fara að svara þeirri spurningu.