141. löggjafarþing — 76. fundur,  31. jan. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[12:25]
Horfa

Atli Gíslason (U) (andsvar):

Frú forseti. Það er rétt, það er mikil vinna að baki og ég lýsti því í ræðu minni, hugmyndaríkum tillögum sem fram hefðu komið, bæði frá þjóðfundi og stjórnlagaráðinu sem slíku. Málið er hér núna í fyrsta sinn í þinginu sjálfu sem er stjórnarskrárgjafinn með þjóðinni, leggur fyrir þjóðina tillögur sínar.

Ganga viðhorf einstakra þingmanna framar? spyr hv. þingmaður. Ég er ekki að leggja mína ræðu upp með þeim hætti. Því fór fjarri. Ég vísaði til fræðimanna og ég leyfi mér í þessu stutta svari mínu til hv. þm. Björgvins G. Sigurðssonar að lýsa því yfir að mér líður eins og ég sé í sömu stöðu og Samband íslenskra sveitarfélaga um aðkomu mína að þessari vinnu á síðustu dögum. Það er hún sem þarf að bæta, það er það sem Samband íslenskra sveitarfélaga gagnrýnir og ég tek undir þá gagnrýni.