141. löggjafarþing — 76. fundur,  31. jan. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[12:27]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Eins og ég nefndi áðan var ræða hv. þingmanns fín, efnisleg og mörg góð viðhorf sem þar komu fram. Margt af því er búið að fara í gegnum og skoða í þeirri vinnu sem nú er að ganga til enda á Alþingi. Ég get tekið sem dæmi að sú nefnd sem ég veiti forstöðu, allsherjar- og menntamálanefnd, hafði til umsagnar 36 af þessum greinum, rúman þriðjung frumvarpsins. Það var mjög gagnlegt og mikil vinna að fara í gegnum það allt en sú vinna sannfærði mig líka um að frumvarpið frá stjórnlagaráði eftir þjóðaratkvæðagreiðslu og sérfræðingahópinn og allt væri svo sannarlega þess vert að ganga hér til enda. Svo er það alltaf þjóðin sem á aftur síðasta orðið í þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskipunarlögin sem Alþingi samþykkir á hverjum tíma.

Við gerum nokkrar breytingartillögur sem við teljum að rúmist innan ramma tæknilegra breytinga og einhvers sem rúmast í þjóðfundi. Þess vegna spyr ég hv. þingmann aftur: (Forseti hringir.) Burt séð frá viðhorfum ýmissa til ýmissa greina, því að það er enginn skortur á því, sem betur fer, getum við sniðgengið þjóðarviljann sem svo sannarlega kom fram í þessari afdráttarlausu niðurstöðu í þjóðaratkvæðagreiðslu 20. október sl.?