141. löggjafarþing — 76. fundur,  31. jan. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[14:14]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður sagði í ræðu sinni líka að breytingar þyrftu að fá að þróast eðlilega. Ég er hjartanlega sammála því og ég er honum meira að segja sammála um að gera þurfi töluverðar breytingar á stjórnarskránni. Það er hins vegar ekki eðlilegt þegar hlutir eru ekki ræddir í hörgul eins og athugasemdir mínar um Lögréttu og ekkert gert með þær.

Þjóðin mun aldrei greiða atkvæði um þessa stjórnarskrá, aldrei, ekki eins og ferlið er hugsað. Kosið verður til Alþingis næst og þá kjósa menn um eitthvað allt annað en stjórnarskrá. Ég lofa því, herra forseti. Það verður kosið um efnahagsstefnu næstu ára, hvað eigi að gera við heimilin, hvernig bæta eigi atvinnu og annað slíkt. Síðan samþykkir nýtt Alþingi, ef svo ber undir, stjórnarskrána og þjóðin hefur aldrei greitt um hana atkvæði. Ég spyr hv. þingmann: Finnst honum það góð hugmynd eða vill hann fallast á mína hugmynd um að fyrst verði breytt ákvæðinu um hvernig eigi að breyta?

Varðandi eignarréttinn, þar tekur nefndin aftur inn að eignarrétti fylgi skyldur. Hvað þýðir það eiginlega? Ef ég á íbúð einhvers staðar, ber mér að leigja hana ef hún stendur auð? Ef ég á herbergi (Forseti hringir.) uppi í íbúðinni minni, ber mér að leigja herbergið ókunnugu fólki ef það stendur autt?