141. löggjafarþing — 76. fundur,  31. jan. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[14:19]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við munum náttúrlega öll hvernig hugmynd stjórnlaganefndarinnar var varðandi það hvernig átti að fara með umsagnir fagnefndanna. Það átti einfaldlega að afgreiða málið frá nefndinni áður en fagnefndirnar hefðu tækifæri til að skila af sér sinni afurð. Síðan gripu einhverjir fram fyrir hendurnar á meiri hlutanum í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þannig að hún komst ekki upp með það. Það er út af fyrir sig ágætt.

Við sjáum hins vegar þegar við lesum í gegnum umsagnir til dæmis fagnefnda, ég nefndi áðan atvinnuveganefnd, og berum saman þann texta sem kemur fram í nefndaráliti meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, að ekki hefur verið farið að þeim ábendingum sem meiri hluti atvinnuveganefndar var með. Meiri hlutinn kaus það verklag að vinna þannig í nefndaráliti sínu að draga fram ýmsar ábendingar sem hefðu komið fram í starfi nefndarinnar en voru ekki með beinar tillögur, og voru í sjálfu sér með þeim hætti að skilja málið þá eftir nokkuð opið fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd.

Ég gagnrýni ekki vinnubrögðin í þeim nefndum sem ég sat í, hvorki atvinnuveganefnd né velferðarnefnd. Það sem ég er að gagnrýna er að ég tel að þessi vinna hafi verið unnin án þess að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd (Forseti hringir.) hafi ætlað sér að taka tillit til þeirrar vinnu sem var unnin í fagnefndunum og það er auðvitað brigð frá þeim loforðum og þeim (Forseti hringir.) yfirlýsingum sem voru gefnar hérna fyrir jólin þegar var verið að ræða þessi mál í 1. umr.