141. löggjafarþing — 76. fundur,  31. jan. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[14:22]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Lúðvík Geirssyni fyrir yfirgripsmikla og prýðilega ræðu. Það var eitt atriði sem hann kom inn á undir lok ræðu sinnar sem mig langar að eiga orðastað við þingmanninn um. Það er 106. gr. undir kaflanum um sveitarfélög þar sem fjallað er um svokallaða nálægðarreglu. Á einum fundi í umhverfis- og samgöngunefnd sem ég sat og þetta atriði kom til umfjöllunar var rætt við fulltrúa frá Háskólanum á Akureyri, sérstaklega um orðalagið, þar sem segir: „Á hendi sveitarfélaga, eða samtaka í umboði þeirra, skulu vera þeir þættir opinberrar þjónustu sem best þykir fyrir komið undir staðbundinni stjórn þeirra …“ Þetta kom þingmaðurinn inn á.

Í mínum huga er þetta svolítið óskýrt, sérstaklega í skýringum stjórnlagaráðs, talað er um að þetta séu ekki bara samtök sveitarfélaga, eins og hefði mátt hugsa sér að skilja þetta, byggðasamlög eða annað slíkt, heldur jafnvel einkaréttarlegir aðilar. Ég vil spyrja þingmanninn hvort ekki sé hætta á að ákveðinn lýðræðishalli verði ef þetta er skilgreint með svona víðum hætti, að kjósendur eigi ekki (Forseti hringir.) beina aðkomu að þeim ákvörðunum sem verið er að taka þegar búið er að færa það frá kjörnum sveitarstjórnarmönnum og til annarra aðila.