141. löggjafarþing — 76. fundur,  31. jan. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[14:27]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þm. Lúðvík Geirssyni fyrir ágæta ræðu þó að ég sé um margt ósammála því sem fram kom í máli hans en ég get ekki gert grein fyrir því hér í stuttu andsvari.

Mig langar að spyrja hv. þingmann út í jöfnun atkvæðavægis í landinu. Ég er einn af þeim sem hafa verið talsmenn þess að hinar dreifðu byggðir eigi fulltrúa sína hér á þingi, á því bágt með að sjá að menn geti gengið alla leið í þeim efnum. Hins vegar varð hv. þingmanni tíðrætt um jafnræði og jafnrétti landsmanna hvað það varðar. Ef hv. þingmaður vill jafna þetta algjörlega þannig að heilu landsvæðin eigi jafnvel ekki sína fulltrúa á Alþingi Íslendinga, er þá ekki rétt að við jöfnum stjórnsýsluna hvað þetta varðar? Hún er nær öll á suðvesturhorni landsins, þúsundir starfa. Er þá ekki rétt, ef þingmaðurinn ætlar að vera samkvæmur sjálfum sér í þeim efnum, að menn geri þá grundvallarbreytingar á því hvar við höfum ráðuneytin í landinu og ýmsar stofnanir? Það er ýmislegt hægt að gera með nútímatækni. Verður þá ekki að fara í einhverja uppstokkun samhliða þeirri breytingu sem hv. þingmaður mælir hér með?