141. löggjafarþing — 76. fundur,  31. jan. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[14:28]
Horfa

Lúðvík Geirsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni innleggið. Ég orðaði það ekki þannig að jafna ætti þetta algjörlega. Ég geri mér grein fyrir að þess er ekki kostur. Menn þurfa hins vegar að finna ásættanlegar leiðir um að ná sem mestum jöfnuði eins og kostur er. Við verðum að horfa til þess að gerðar hafa verið alvarlegar athugasemdir af hálfu eftirlitsaðila, opinberra alþjóðlegra aðila, sem sjá að við erum ekki að útfæra þessa hluti með þeim hætti sem talið er eðlilegt að sé innan normalmarka.

Til ýmissa þátta er að líta í þessu, ég geri mér grein fyrir því. Við búum í allt öðru samfélagi í dag en var fyrir 20, 30 árum, ég tala nú ekki um 50, 100 árum. Aðgengi að þjónustu og upplýsingum er með allt öðrum hætti en þá var. En það er líka hægt að byggja það inn í kosningakerfið sjálft, að tryggja jöfnuð og að opið sé fyrir það hvaðan fulltrúar eru kjörnir. Það er líka í höndum flokkanna sjálfra, og ekki síst þá líka kjósenda með persónuvali hvernig menn tengja (Forseti hringir.) þessa hluti saman. Það er það sem Alþingi þarf að skoða betur.