141. löggjafarþing — 76. fundur,  31. jan. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[14:30]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni svörin. Hann endaði á því að ræða um persónukjör, sem er vinsælt orð núna. 39. gr., eins og hún er í breytingartillögum meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, er dálítið opin hvað varðar alþingiskosningar.

Ég hef vaxandi efasemdir um að rétt sé að færa persónukjörið inn í kjörklefann. Í raun og veru er því verið að færa prófkjör flokkanna úr þeim farvegi sem það er í núna inn í kjörklefann. Maður veltir fyrir sér: Í hvaða trú fara þá kjósendur inn í kjörklefann? Þeir geta fengið einhvern allt annan lista en þeir höfðu hugsað sér að kjósa. Væri ekki nær að reyna að gera þetta með samræmdari hætti þremur mánuðum fyrir kosningar, að menn hafi einhverja helgi þar sem þeir koma saman og stilla upp þeim listum eins opið og hægt er, þannig að fólk viti í raun og veru að hverju það gengur þegar það fer inn í kjörklefann að kjósa sína lista? Með því fyrirkomulagi sem opnað er á hér vita kjósendur í raun og veru ekkert hvaða lista þeir kjósa á endanum.