141. löggjafarþing — 76. fundur,  31. jan. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[15:19]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Ólöfu Nordal fyrir hennar ræðu og vænti þess að hún eigi eftir að koma aftur upp í þessari umræðu og fara ítarlegar yfir einstök atriði í áliti fulltrúa sjálfstæðismanna í nefndinni. Ég kem hingað upp til að mótmæla því harðlega, sem hv. þingmaður gaf í skyn, að það skipti máli hvaðan eða frá hvaða fræðimönnum tillögur kæmu þegar að því kæmi að taka afstöðu til þeirra. Í orðum hennar mátti því miður lesa það að þær tillögur sem kæmu frá Björgu Thorarensen prófessor nytu ekki verðugrar athygli nefndarinnar. Ég mótmæli þessu. Það er rétt sem fram kemur í nefndaráliti minni hlutans að Björg Thorarensen er ein þeirra sem hefur lýst efasemdum um að hafa náttúruverndina og auðlindirnar í mannréttindakaflanum. Það eru líka til mótrök við því og hér er vísað til tillögu hennar um að þessi ákvæði yrðu færð í sérstakan kafla og að endurröðun færi fram á þessum ákvæðum.

Hér segir að meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar hafi ekki rætt sérstaklega endurröðun ákvæða þrátt fyrir þessar athugasemdir og ábendingar og hyggist fjalla um það síðar og skilur það eftir óafgreitt.

Ég tel nauðsynlegt að það komi fram að ítarlega er fjallað um þetta atriði í áliti meiri hlutans, og í dag barst nefndarmönnum í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd álitsgerð eða minnisblað frá Oddnýju Mjöll Arnardóttur prófessor sem hefur tekið þetta atriði til sérstakrar athugunar fyrir okkur. Með því að álitið er dagsett í dag hefur nefndinni ekki tekist að fjalla um það og mér hefur ekki gefist færi á að lesa það yfir.