141. löggjafarþing — 76. fundur,  31. jan. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[15:30]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég sé að við eigum eftir að eiga mjög áhugaverðar umræður í þingsal um þessi mál á komandi dögum og vikum. Að sjálfsögðu eru þeir sem sitja hér inni fulltrúar þjóðarinnar. Er það sem sagt skoðun hv. þingmanns að það sé ekki lýðræði í landinu, að menn geti ekki boðið sig fram og hægt sé að kjósa eftir listum? Er það sem sagt niðurstaðan? Við getum talað um persónukjör en það er fjarstæðukennt að halda því fram að á Alþingi Íslendinga sé bara eitthvert fólk sem hafi fallið af himni ofan, fólk sem sé allt eins. Ég bara get ekki fallist á að við séum öll eins hér. Við höfum afskaplega ólíkar skoðanir og komum héðan og þaðan í þjóðfélaginu. Við skulum ekki gera lítið úr því sem hér fer fram, það þjónar ekki neinu í þessu máli.