141. löggjafarþing — 76. fundur,  31. jan. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[15:49]
Horfa

Lúðvík Geirsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Valgeiri Skagfjörð fyrir hans innlegg í umræðuna. Ég held að það sé mjög brýnt að fá þann tón, hvatningu og áherslu sem kom fram í máli hans einmitt í þessa umræðu þannig að menn skynji þann veruleika og bakgrunn sem býr að baki því að við erum stödd hér í dag. Við erum með þetta verkefni á lokasprettinum og þótt við heyrum ýmsar gagnrýnisraddir — sumir hafa í raun og veru verið ósáttir við að nokkuð sé hreyft við þessu máli, að breytingar á stjórnarskrá séu ræddar — er það þjóðin fyrir utan þessi salarkynni sem fagnar því að málið sé komið í þann farveg sem raun ber vitni í dag.

Ég hjó eftir því að hv. þingmaður talaði um nýja stjórnarskrá sem samfélagssáttmála. Hann notaði það orð og talaði um gildi texta, skýrleika og í raun og veru þann blæ sem er yfir orðafarinu sem einkennir og kannski greinir þessa tillögu að nýrri stjórnarskrá frá þeirri sem við höfum haft. Að sama skapi heyrum við gagnrýni og athugasemdir þeirra sem andmæla tillögunum sem eru settar fram hér, að orðalagið einmitt skapi svo mikla óvissu gagnvart túlkun fyrir dómstólum og öðru að það setji þetta mál allt í uppnám. Mig langar að heyra hvernig hv. þingmaður bregst við þeirri gagnrýni og hvort hann telur að það sé stóri vandinn sem við stöndum frammi fyrir í málinu sem við erum að takast á við.