141. löggjafarþing — 76. fundur,  31. jan. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[15:54]
Horfa

Valgeir Skagfjörð (Hr) (andsvar):

Ég hef þá skoðun að þjóðin sé orðin mjög óþreyjufull, óþreyjan er mjög mikil. Það hefur verið kallað eftir þessu í mörg ár og það voru miklar vonir bundnar við ferlið sem hófst með þessum þjóðfundi og síðan allt það sem fylgdi í kjölfarið. Ég man eftir því sjálfur. Ég var staddur úti á landi og stoppaði bílinn minn á planinu uppi á heiði. Ég horfði á Herðubreið og heyrði viðtal við stjórnlagaráðsmann í útvarpinu þar sem hann lýsti því yfir að búið væri að klára plaggið, allir voru sáttir við það og það var sterkur andi og mikil ástríða í máli viðkomandi. Ég sat í bílnum og ég klökknaði þegar ég heyrði þetta.

Þegar maður verður fyrir svona áhrifum bendir það til einhvers, að það sé verið að gera eitthvað sem er gott og skiptir máli. Ég held að þetta skipti miklu máli fyrir okkur og fyrir fólk í því ljósi sem ég var að tala um áðan, að skapa von og trú í þessu samfélagi á land og þjóð, ráðamenn og stjórnsýsluna alla. Við erum ekki að kalla á breytingar af því að okkur finnist þær svo skemmtilegar. Breytingar eru kannski það erfiðasta sálfræðilega og tilfinningalega sem maðurinn gengur í gegnum á ævinni. Það er kannski þess vegna sem þessar breytingar eru svona erfiðar. Við þurfum ef til vill að fara á námskeið í breytingastjórnun til að komast í gegnum þetta.

Ég óttast ekki breytingarnar. Eitt er víst og það er að lögmál lífsins er að það breytist.