141. löggjafarþing — 76. fundur,  31. jan. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[16:39]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vildi byrja á að þakka hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni fyrir ágæta yfirferð á utanríkiskaflanum en mér sýnast þeir einnig fjalla um eignarréttarákvæðið. Ég sé ekki nafnið hans undir nefndarálitinu en það má vel vera að ég sé ekki með réttu skjölin á réttum stað því að þetta er orðið ansi viðamikið efni að fletta í gegnum, nefndarálit einstakra nefnda til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.

Það sem mig langaði til að spyrja hv. þingmann um og hann kom ekki inn á er ákvæði í 3. mgr. 109. gr. um meðferð utanríkismála þar sem stendur, með leyfi frú forseta:

„Ákvörðun um stuðning við aðgerðir sem fela í sér beitingu vopnavalds, aðrar en þær sem Ísland er skuldbundið af samkvæmt þjóðarétti, skal háð samþykki Alþingis.“

Því er ekki breytt í meðförum nefndarinnar og ekki lögð fram breyting frá meiri hluta utanríkismálanefndar. Þá er það spurningin: Hvað gerist ef ráðist er beint á Ísland? Ef hryðjuverkasamtök koma hingað með 100 manns, vélbyssur og skotvopn og við þurfum að grípa til hernaðaraðgerða? Mér sýnist að það megi ekki nema Alþingi fjalli um það á fundi. Auðvitað gætum við beitt vissum neyðarrétti.

Ég lagði nefnilega til við hv. nefnd þann 25. febrúar í fyrra að þarna yrði bætt inn ákvæðinu „til þess að verjast innrás“ og því yrði bætt inn að það væri líka í hinu tilfellinu sem hægt væri að grípa til hernaðaraðgerða án þess að leita samþykkis Alþingis. Það sýnir að nefndarálitið mitt sem var upp á 35–40 síður var aldrei lesið. Það hefur ekki verið tekin nein afstaða til þess eða margra hugmynda sem þar komu fram og það finnst mér miður.