141. löggjafarþing — 76. fundur,  31. jan. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[16:45]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Fyrst varðandi 109. gr. aftur og 3. mgr. þar verður að hafa það í huga að í þeirri grein er verið að fjalla um meðferð utanríkismála (Gripið fram í.) og um ákvörðun um stuðning við aðgerðir, stuðning íslenskra stjórnvalda við aðgerðir annarra. Þess vegna má hv. þingmaður ekki blanda því saman við möguleika og rétt íslenskra stjórnvalda og íslenska ríkisins til þess að verja sjálft sig og þar er neyðarrétturinn algerlega kýrskýr í mínum huga. Ég vek athygli á því að í stjórnarskrá lýðveldisins var fram til ársins 1995 ákvæði um að það væri heimild til þess að kveðja sérhvern vopnfæran mann til þess að taka þátt í vörnum landsins. Það var reyndar tekið út 1995, en það hefur verið skýrt þannig að sú heimild sé eftir sem áður til staðar samkvæmt neyðarrétti.

Mér finnst ekki að það megi blanda saman annars vegar því sem við erum að fjalla um um meðferð utanríkismála og heimildir okkar til stuðnings við aðgerðir sem aðrar þjóðir eru að grípa til, og svo því sem við gerum sem þjóð gagnvart okkur sjálfum.

Varðandi eignarréttarákvæðin verð ég að segja við hv. þingmann að ég hef ekki fjallað um það álitamál í þeirri vinnu sem ég hef komið að í stjórnarskránni. Ég hef fjallað um 13. gr. í utanríkismálanefnd að því er varðar takmarkanir á eignarhaldi útlendinga og við lögðum fram ákveðna tillögu í því. Eftir því sem mér skilst hefur stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd gert þær breytingar sem þingmaðurinn nefndi að tillögu þriggja þingnefnda. Það eru ekki þingnefndir sem ég hef starfað í þannig að ég þekki ekki umræðuna um það og get ekki svarað þingmanninum hér „på stående fod“, eins og maður segir.

Af því að þingmaðurinn spurði af hverju nafn mitt væri ekki undir umsögn utanríkismálanefndar vil ég taka fram að ég var farinn út af þingi þegar málið var afgreitt út úr nefndinni og varamaður minn hafði tekið sæti en ég átti fullan þátt í undirbúningi málsins af hálfu nefndarinnar allan (Forseti hringir.) þann tíma sem það var á þeim vettvangi og þar til einungis kom að úttekt málsins.