141. löggjafarþing — 76. fundur,  31. jan. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[17:24]
Horfa

Róbert Marshall (U) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það að vilja ekki breyta stjórnarskránni er skoðun og það er skoðun sumra hér inni. Hún er ekki ráðandi, það er ekki meiri hluti fyrir þeirri skoðun, en það þýðir ekki að það beri ekki að hlusta á hana. Þegar við ræðum stjórnarskrána er ég þeirrar skoðunar að menn eigi að ræða við þá sem vilja ekki breyta stjórnarskránni á nokkurn hátt og spyrja: Hvað viljið þið þá gera? Hver er þá ykkar tillaga? Það er nefnilega ekki valmöguleiki fyrir stjórnarandstöðuna, fyrir minni hlutann á þinginu, fyrir þann minni hluta sem ekki vill breytinguna, að stjórnarskránni verði ekki breytt. Veruleikinn er sá að það er verið að gera það, það er meiri hluti fyrir því á þessu þingi. Þá er val þeirra sem eru í minni hlutanum að vera algerlega áhrifalausir af því sem hér fer fram eða hvort þeir komi til móts við atburðarásina.

Það gerðu þeir í upphafi kjörtímabilsins þegar þeir komu með hugmyndina að þjóðfundinum. Það gerðu þeir þegar þeir hjálpuðu til við að manna stjórnlaganefndina (Forseti hringir.) og það ættu þeir að geta gert núna.