141. löggjafarþing — 76. fundur,  31. jan. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[17:29]
Horfa

Róbert Marshall (U) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er það sem ég rakti í ræðu minni, að það ætti ekki að láta tímapressuna verða til þess að við skiluðum af okkur verki sem við værum ekki sátt við. Ég er þeirrar skoðunar að sé farið yfir auðlindaákvæðið í 34. gr., kosningalöggjöfina í 39. gr., 63.–65. gr. um beint lýðræði og svo utanríkismálakaflann séu menn komnir býsna nálægt landi. Það er ekki mikið eftir þannig séð. Þó að spurningarnar séu risavaxnar í þessum ákvæðum held ég að það sé búið að vinna það mikla vinnu og að það mikið af gögnum liggi til grundvallar að það sé hægt að ráðast til atlögu við þau.

Ég held að það sé enn hægt, ég held að það sé enn möguleiki að ljúka þessari vinnslu á þessu kjörtímabili, en það skiptir auðvitað mjög miklu máli með hvaða hugarfari menn nálgast það og það sem eftir stendur.