141. löggjafarþing — 76. fundur,  31. jan. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[17:33]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég er ansi hræddur um að við breytum ekki hugsunarhætti dómara og lögfræðinga í landinu sisvona og ekki með lögum eða stjórnarskrá vegna þess að þeir fara í upphaflegu greinargerðina með frumvarpinu til lögskýringar jafnvel þó að í nefndaráliti komi eitthvað annað fram. Þeir munu þá rekast á þversagnir sem gera þeim erfitt um vik.

Ég ætlaði líka að ræða við hv. þingmann um framhaldið. Mér finnst það eiginlega athyglisverðari þátturinn. Ég hef flutt um það frumvarp, eins og hv. þingmanni er kunnugt um, að breyta eingöngu 79. gr., þ.e. hvernig stjórnarskránni sjálfri er breytt. Ég tel að menn ættu að ræða það mjög ítarlega vegna þess að það verður að gera fyrir næstu kosningar ef menn ætla yfirleitt að láta þjóðina greiða einhvern tíma atkvæði um stjórnarskrá sína með bindandi hætti. Ég vildi gjarnan að hv. þingmaður svaraði því hvort það kæmi til greina.

Síðan eru ýmis atriði sem ég held að allir þingmenn verði sáttir við, t.d. að setja ákvæði um Hæstarétt inn í stjórnarskrá. Það er eiginlega til vansa að það skuli ekki vera ákvæði um Hæstarétt í stjórnarskrá og Lögréttu líka eins og ég vildi reyndar útfæra hana.