141. löggjafarþing — 76. fundur,  31. jan. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[17:36]
Horfa

Róbert Marshall (U) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ef hv. þingmaður hefði hlustað á ræðu mína hefði hún heyrt skýringarnar á því hvers vegna ég var ekki á nefndarálitinu og skýringar mínar á því að ég er á þessu frumvarpi.

Ég held að það sé mikill plagsiður í íslenskri umræðuhefð og stjórnmálum að reyna að setja sig inn í höfuðið á einhverjum öðrum en sjálfum sér og útskýra hvað viðkomandi er að hugsa, eins og hv. þingmaður gerði hér áðan. Það er til algjörrar óþurftar, það skilar engum árangri. Er ekki besti maðurinn til þess að lýsa skoðunum mínum á stjórnarskrárferlinu ég sjálfur? Þarf hv. þingmaður að gera nokkuð annað hér í þessum þingsal en að lýsa eigin skoðunum á stjórnarskránni? Fjölmiðlar í landinu búa til fréttaskýringar og greina frá skoðunum manna og flestir sem starfa hér eru fullfærir um að koma þeim á framfæri.

Fullyrðingar hv. þingmanns um skoðanir mínar í þessum efnum standast enga skoðun.