141. löggjafarþing — 76. fundur,  31. jan. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[17:41]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Ástæða er til að byrja á að nefna að ég tel að það vinnulag sem valið var að viðhafa eftir 1. umr. málsins þegar það kom til nefndarinnar aftur, að fela fagnefndum þingsins að fjalla um tiltekna þætti frumvarps til stjórnarskipunarlaga, hafi verið mjög heppilegt. Með því gafst þinginu öllu tækifæri til að koma að ferlinu, þingmönnum í hinum ýmsu þingnefndum — margir sitja í tveimur — gafst tækifæri til að koma að ítarlegri og dýpri vinnu við einstakar greinar frumvarpsins en áður hafði gefist kostur í þessu einstaka ferli sem hefur staðið yfir í nokkur ár. Þetta vinnulag reyndist mjög vel, það sjáum við í afurðinni sem er nefndarálit stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar með umsögnunum öllum sem fylgiskjölum og í þeirri umræðu sem þegar hefur átt sér stað í dag og í gær. Sú umræða hefur mestan part verið efnisleg og mjög góð og vönduð.

Ég tel að þessi yfirferð hafi dýpkað málið. Sjálfur fékk ég mjög eindregna sannfæringu fyrir málinu hafandi þann starfa að vera formaður allsherjar- og menntamálanefndar sem fékk með bréfi frá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd til umsagnar 32 greinar frumvarpsins eða nær 1/3 hluta þess.

Áður en ég kom að þeirri vinnu hafði ég fylgst með málinu eins og hver annar þingmaður, lesið frumvörpin og hlustað á umræðuna, en þarna gafst mér og öðrum þingmönnum tækifæri til að koma með allt öðrum hætti að vinnunni, kalla til þá sérfræðinga sem við töldum að væri heppilegt að fá sjónarmið frá og fara mjög ítarlega og vandlega yfir málið. Þetta tókst alveg ágætlega að ég held og er liður í því sérstaka lýðræðislega ferli sem núna hefur staðið yfir meira og minna allt þetta kjörtímabil í því að endurskoða stjórnarskrána.

Rétt til að undirstrika það ferli þá er fyrirliggjandi frumvarp til stjórnarskipunarlaga byggt á tillögum stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá sem voru afhentar forseta þingsins 29. júlí 2011. Ráðið var skipað 25 einstaklingum í fjóra mánuði til endurskoðunar á stjórnarskránni. Stjórnlagaráði var með lögunum falið að fjalla sérstaklega um ákveðna þætti sem tóku mið af niðurstöðu 950 manna þjóðfundar um stjórnarskrármálefni. Þá fékk stjórnlagaráð undirbúningsgögn frá stjórnlaganefnd sem hafði það með höndum að standa að þjóðfundinum, vinna úr upplýsingunum, afhenda þær stjórnlagaþingi og auk þess hafði stjórnlaganefnd það hlutverk að safna og vinna úr ýmsum fyrirliggjandi gögnum og leggja fram hugmyndir um breytingar til ráðsins.

Forseti lagði tillögur ráðsins fram á þinginu í formi skýrslu sem fór til umfjöllunar í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Þessu ferli vatt ágætlega fram. Stundum dimmdi kannski yfir því en alltaf rættist úr. Það sem mér þótti persónulega algjör vendipunktur í þessu mjög svo lýðræðislega og einstaka ferli þar sem þúsundir hafa komið að var þjóðaratkvæðagreiðslan. Þann 24. maí í fyrra samþykkti þingið að vísa því til þjóðarinnar hvort tillögur stjórnlagaráðsins skyldu lagðar til grundvallar að nýrri stjórnarskrá og jafnframt að leita álits almennings, kjósenda, á tilteknum málefnum. Ég tel að það hversu þjóðaratkvæðagreiðslan tókst vel til og hversu afdráttarlausar niðurstöður fengust þar hafi skapað algjör þáttaskil í ferlinu. Í þjóðaratkvæðagreiðslunni 20. október greiddu 64,2% kjósenda atkvæði með því að frumvarp stjórnlagaráðs yrði lagt til grundvallar nýrri stjórnarskrá.

Að mínu mati var ekki með neinum hætti hægt að snúa til baka eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna. Þar lá fyrir svo skýr vilji allra þeirra kjósenda sem sáu ástæðu til að segja álit sitt á málinu um að frumvarpið skyldi liggja nýrri stjórnarskrá til grundvallar. Þar var einnig spurt um einstök álitaefni. Besta dæmið um skýran vilja kjósenda var að í einu atriði voru fyrirmæli þeirra sú að breyta því ekki sem laut að kirkjuskipan. Að sjálfsögðu verður stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og Alþingi við því. Það er besta og skýrasta dæmið um það hve mikill þungi var í þjóðaratkvæðagreiðslunni, þessi afdráttarlaus vilji í báðar áttir — í hinum spurningunum fimm var alls staðar sagt já. Þarna voru fyrirmæli frá fólkinu í landinu um að halda því horfi sem er í núgildandi stjórnarskrá.

Eins og ég upplifi þetta er það svo að hver einasti þingmaður, við öll 63, hefur skoðanir á hverri einustu grein, hverju þurfi að breyta og hverju þurfi ekki að breyta og hvernig breytingarnar mega og skyldu bestar vera. En vilji einstakra þingmanna gengur ekki framar þjóðarviljanum þegar búið er að setja málið í dóm kjósenda með þeim beina og milliliðalausa hætti og þingið ákvað 24. maí í fyrra að gera. Það voru þáttaskil. Þar settum við málið í dóm kjósenda, sem greiddu því atkvæði.

Við getum rakið upphaf málsins alveg aftur til ársins 2009 þegar það var skilyrði Framsóknarflokksins fyrir stuðningi við minnihlutastjórnina að skipað yrði stjórnlagaþing og að þetta ferli yrði sett af stað. Því hefur svo undið fram eins og við þekkjum. Nú erum við komin í lokakaflann þar sem Alþingi vinnur úr öllu því ferli og eftir að við höfum klárað þetta mál fyrir kosningar er endapunkturinn þjóðaratkvæðagreiðsla um nýju stjórnarskipunarlögin sem Alþingi hefur þá afgreitt frá sér. Þingið afgreiðir það frá sér til þjóðarinnar aftur og það er þjóðin sem hefur síðasta orðið um málið.

Ég ætla að tæpa á allra helstu atriðunum sem allsherjar- og menntamálanefnd fjallaði um. Eins og ég sagði voru það 32 greinar, tæpur þriðjungur frumvarpsins. Útilokað að gera allri þeirri umfjöllun tæmandi skil hér enda liggur hún fyrir í umsögninni í nefndarálitinu. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hefur unnið úr henni og það sem hún tók upp er komið í tillögur hennar. Ég vildi samt skýra nokkur atriði sérstaklega sem voru allra þyngstu atriðin að mínu mati, þau sem snúa að íslenskri tungu, eignarhaldi útlendinga á auðlindum og fasteignum og fleiri atriðum.

Fyrst að samantekt og ábendingum um það sem við vísuðum til nefndarinnar. Meiri hlutinn hefur við vinnu sína gengið út frá því að breyta sem minnstu frá tillögum stjórnlagaráðs, það var vinnulagið. Við settum okkur ákveðinn ramma og reyndum að halda okkur innan hans, sem var að fara ekki út í efnislegar breytingar sem ættu sér ekki stoð í tillögum frá þjóðfundinum eða annars staðar í ferlinu. Þannig náðum við að halda fínni samstöðu í ágætum meiri hluta í nefndinni og það markaði alla okkar lokaniðurstöðu.

Við töldum brýnt að niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslunnar væru virtar í hvívetna um að frumvarp stjórnlagaráðs væri lagt til grundvallar nýrri stjórnarskrá. Við töldum, eftir að hafa rýnt þær breytingar sem sérfræðingahópurinn gerði, að í flestum tilfellum væri um að ræða lagatæknilegar breytingar eða breytingar sem væru gerðar til að tryggja innra samræmi í frumvarpinu eða samræmi þess við alþjóðlega sáttmála. Þetta var fínstillingarvinna. Í einstökum tilfellum teljum við þó að sérfræðingahópurinn hafi farið út fyrir umboð sitt og leggjum til að gengið verði til baka frá breytingum sérfræðihópsins og að tillögur ráðsins fái að halda sér.

Þó svo að við í meiri hlutanum teljum brýnt að hrófla ekki að meginstefnu við tillögum stjórnlagaráðs teljum við að í fáeinum tilvikum hnígi rök til þess að leggja til breytingar sem ekki eru upprunnar í tillögum stjórnlagaráðs og er því beint til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar að gera þær. Í áliti okkar voru jafnframt tiltekin einstök atriði eða ákvæði sem við töldum að þyrfti að skoða frekar. Sumt af því hafði þá þegar verið skoðað, við höfðum ekki ýtrustu yfirsýn yfir það en vildum frekar láta það fylgja með en ekki. Í umsögn okkar fylgir listi yfir þau atriði sem við teljum að þurfi að skoða og þær breytingar sem við leggjum til að eigi að gera við málið. Að öðru leyti vísum við til ítarlegrar umfjöllunar um málið annars staðar í umsögninni.

Aðeins um þau atriði sem við teljum að þurfi nánari skoðunar við. Eins og kom til dæmis fram í ræðu fyrri ræðumanns, hv. þm. Róberts Marshalls, hefur greinargerð frumvarpsins verið gagnrýnd fyrir óskýrleika á stöku stað. Við bendum á í nefndarálitinu að nauðsynlegt sé að skýringar séu afdráttarlausar og aðgengilegar við einstök ákvæði í nefndaráliti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Við teljum að við því hafi verið brugðist. Við bendum á að meta þurfi sérstök áhrif einstakra breytinga.

Þær breytingartillögur sem við leggjum til eru þessar í réttri röð:

1. Á eftir orðunum „íslenskum ríkisborgararétti“ í 2. mgr. 4. gr. komi: sem öðlast hefur slíkan rétt með löglegum hætti.

2. Á eftir 4. gr. komi ný grein ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Íslensk tunga.

Íslenska er þjóðtunga á Íslandi og skal ríkisvaldið styðja hana og vernda.

Þetta er nýmæli, efnislegt nýmæli sem við teljum að eigi að bæta inn í frumvarp til stjórnarskipunarlaga. Þetta nýmæli á sér aftur á móti stoð í tillögum frá þjóðfundi og innan ferlisins sjálfs. Þó að nefndinni hafi ekki verið falið sérstaklega að fjalla um aðfaraorð frumvarpsins töldum við samt rétt, eins og segir í umsögn okkar, að draga fram gagnrýni sem kom fram um tiltekinn þátt þeirra er varðar málefnasvið hennar, þ.e. íslenska tungu. Við töldum að huga þyrfti sérstaklega að stöðu aðfaraorða frumvarpsins og gildi þeirra og brýnt væri að ríkari skýringar yrðu gerðar um þann þátt málsins. Vísuðum við þar til þeirra sjónarmiða sem komið var á framfæri um að tilgangur aðfaraorðanna væri leiðsögn við túlkun á stjórnarskránni.

Þjóðfundurinn lagði áherslu á að staðinn yrði vörður um sameiginleg þjóðareinkenni Íslendinga, þar með talið tungumálið. Niðurstaða þjóðfundarins var að vernda og efla bæri íslenska tungu sem þjóðtungu, að standa ætti vörð um hana í ræðu og riti og tryggja þyrfti sérstaklega stöðu íslenskrar tungu í skólum landsins.

Hvergi var að finna skírskotun um íslenska tungu í frumvarpinu, þrátt fyrir niðurstöðu þjóðfundar. Þeim sjónarmiðum var komið á framfæri við nefndina að brýnt væri að ráða bót á þessu og setja inn í frumvarpið ákvæði um þetta efni. Slíkt ákvæði þyrfti að vera efnisákvæði frumvarpsins en ekki í aðfaraorðum enda væri óljóst hvort þau hefðu efnislegt gildi eða tilgang.

Við teljum brýnt að þetta þjóðareinkenni Íslendinga sé varið og tökum undir niðurstöðu þjóðfundar um að íslensk tunga feli í sér verðmæti fyrir Íslendinga sem beri að vernda og efla. Leggur meiri hlutinn þess vegna til við stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd — sem varð við því í nefndaráliti sínu — að gerð verði breyting á fyrirliggjandi frumvarpi þess efnis að framangreindu ákvæði um íslenska tungu verði bætt við sem nýju ákvæði við frumvarpið. Við bendum á að um efnisbreytingu sé að ræða, eins og ég nefndi áðan, en hún sé hins vegar í góðu samræmi við vilja þjóðfundar og eigi sér stuðning í greinargerð þeirri sem fylgdi tillögum stjórnlagaráðs. Þá bendum við líka á að skoða eigi sérstaklega stöðu íslenska táknmálsins, m.a. með tilliti til þeirra sjónarmiða sem lágu að baki því að færa í lög nr. 61/2011 sérstakt ákvæði um stöðu þess.

3. Í stað orðanna „Öllum skal tryggður réttur“ í 8. gr. komi: Allir hafa rétt.

4. Á eftir orðinu „lagaheimild“ í 2. mgr. 9. gr. komi: og sé nauðsynlegt.

5. Við 13. gr. bætist ný málsgrein, svohljóðandi:

Með lögum má takmarka rétt erlendra aðila til að eiga fasteignaréttindi eða hlut í atvinnufyrirtæki hér á landi.

Þetta er mjög veigamikið atriði sem við vörðum heilmiklum tíma til að fjalla um og vil ég aðeins varpa ljósi á þá umræðu sem varð um það. Í nefndaráliti okkar segir meðal annars að í ákvæði 13. gr. sé ekki að finna ákvæði 2. mgr. 72. gr. núgildandi stjórnarskrár um að takmarka megi með lögum rétt útlendinga til að eiga fasteignir eða hlut í atvinnufyrirtæki hér á landi. Fyrir nefndinni kom jafnframt fram að yfirráð yfir landi væri mikilvægur þáttur í fullveldi hvers ríkis. Því væri að finna sérreglur um fjárfestingar í stjórnarskrám margra Evrópuríkja, m.a. í 2. mgr. 44. gr. dönsku stjórnarskrárinnar en það ákvæði væri fyrirmynd þess íslenska.

Það var mjög almenn skoðun í nefndinni strax þegar við fórum að fara yfir þetta að mjög mikilvægt væri að halda þessu ákvæði í stjórnarskrá. Í skýringum við ákvæðið kemur fram að þrátt fyrir að það verði fellt brott úr stjórnarskrá verði áfram heimilt að takmarka með lögum fjárfestingar útlendinga hér á landi. Við töldum þó að ákvæðið þyrfti að vera inni og það skýrði heimild löggjafans enn frekar. Svo virðist sem þeirri breytingu sem stjórnlagaráð gerði með því að fella heimildina brott hafi ekki verið ætlað að hafa efnisleg áhrif, þ.e. að stjórnlagaráð hafi litið svo á að heimildin væri áfram til staðar í lögum, að sjálfsögðu. Löggjöf sem takmarkar réttindi útlendinga til að eiga eignir hér á landi yrði áfram heimil en hún yrði ekki studd sérstakri heimild í stjórnarskrá.

Þetta er alveg hárrétt, við tökum undir það, en teljum eigi að síður að ástæða sé til og til þess standi almennur vilji að slík lagagrein sé studd ákvæði í stjórnarskrá. Það var bent á að óvíst væri að unnt væri að takmarka réttindi útlendinga til fjárfestinga yrði ákvæðið óbreytt að stjórnarskipunarlögum enda lægi ekki fyrir hvort slík takmörkun gæti fallið undir skerðingarákvæði 2. mgr. 9. gr. Hugsanlegt yrði að löggjöf af þessu tagi mundi brjóta gegn jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. En fyrir nefndinni kom fram að svo yrði ekki ef ólík meðferð yrði réttlætt með hlutlægum og málefnalegum ástæðum og að gættu meðalhófi.

Þeim sjónarmiðum var komið á framfæri að brottfall ákvæðisins sem hér um ræðir úr stjórnarskrá gæti dregið úr vægi slíkrar löggjafar, þ.e. um takmarkanir á heimildum erlendra aðila til að eiga fasteignarréttindi eða hlut í atvinnufyrirtæki hér á landi gagnvart jafnræðisreglu og skert möguleika löggjafans til að hafa hönd í bagga með þróun mála á þessum mikilvægu sviðum. Þetta töldum við mjög veigamikil og þung rök til framtíðar litið ef slíkar aðstæður sköpuðust að með einhverjum hætti væri vefengd heimild löggjafans til að setja slíkar takmarkanir. Þess vegna telur meiri hluti nefndarinnar brýnt að löggjafinn hafi heimild til að setja lög sem takmarka fjárfestingar útlendinga hér á landi en áréttar að það er löggjafans að ákveða hverju sinni hvort sú heimild verði nýtt. Í ljósi þeirrar óvissu sem virðist uppi um hvort áfram verði heimilt að setja lög af þessu tagi sé ekki til staðar ákvæði í stjórnarskrá sem heimili það með skýrum hætti lögðum við til breytingu á frumvarpinu í þá veru. Við bentum á að þrátt fyrir að hér væri um að ræða breytingu sem fæli í sér að efnisreglu væri bætt við frumvarpið teldum við breytinguna samræmast vilja stjórnlagaráðs um að löggjafanum verði áfram heimilt að takmarka fjárfestingar útlendinga hér á landi. Við töldum það liggja afdráttarlaust fyrir að stjórnlagaráð hefði litið svo á að nóg væri að hafa þetta í lögum og þar af leiðandi væri enginn efnislegur ágreiningur við ráðið um það mál.

Þetta var ein almikilvægasta breytingartillagan sem við gerðum að okkar mati og lýsum yfir mikilli ánægju með að við henni var orðið af meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.

6. 14. gr. ásamt fyrirsögn orðist svo:

Skoðana- og tjáningarfrelsi.

Allir eru frjálsir skoðana sinna og sannfæringar og eiga rétt á að tjá hugsanir sínar.

Ritskoðun og aðrar sambærilegar tálmanir á tjáningarfrelsi má aldrei í lög leiða. Þó má setja tjáningarfrelsi skorður með lögum til verndar börnum, öryggi, heilsu, réttindum eða mannorði annarra, svo sem nauðsyn ber til í lýðræðislegu þjóðfélagi.

Stjórnvöld skulu tryggja aðstæður til opinnar og upplýstrar umræðu. Óheimilt er að skerða aðgang að netinu og upplýsingatækni nema með úrlausn dómara og að uppfylltum sömu efnisskilyrðum og eiga við um skorður við tjáningarfrelsi.

Hver og einn ber ábyrgð á framsetningu skoðana sinna fyrir dómi.

7. Við leggjum til að 15. gr. ásamt fyrirsögn hljóði svo:

Upplýsingaréttur.

Öllum er frjálst að safna og miðla upplýsingum.

Stjórnsýsla skal vera gegnsæ og halda til haga gögnum, svo sem fundargerðum, og skrásetja og skjalfesta erindi, uppruna þeirra, ferli og afdrif. Slíkum gögnum má ekki eyða nema samkvæmt lögum.

Upplýsingar og gögn í fórum stjórnvalda skulu vera tiltæk án undandráttar og skal með lögum tryggja aðgang almennings að öllum gögnum sem opinberir aðilar safna eða standa straum af. Listi yfir öll mál og gögn í vörslu hins opinbera, uppruna þeirra og innihald, skal vera öllum aðgengilegur.

Söfnun, miðlun og afhendingu gagna, geymslu þeirra og birtingu má aðeins setja skorður með lögum í lýðræðislegum tilgangi, svo sem vegna persónuverndar, friðhelgi einkalífs, öryggis ríkisins eða lögbundins starfs eftirlitsstofnana. Heimilt er í lögum að takmarka aðgang að vinnuskjölum enda sé ekki gengið lengra en þörf krefur til að varðveita eðlileg starfsskilyrði stjórnvalda.

Um gögn sem lögbundin leynd hvílir yfir skulu liggja fyrir upplýsingar um ástæður leyndar og takmörkun leyndartíma.

8. 16. gr. ásamt fyrirsögn orðist svo:

Frelsi fjölmiðla.

Frelsi fjölmiðla, ritstjórnarlegt sjálfstæði þeirra og gegnsætt eignarhald skal tryggja með lögum.

Vernd blaðamanna, heimildarmanna og uppljóstrara skal tryggja í lögum. Óheimilt er að rjúfa nafnleynd án samþykkis þess sem veitir upplýsingar nema við meðferð sakamáls og samkvæmt dómsúrskurði.

Þannig hljóðar 16. gr. eftir þá breytingu við teljum að eigi að gera og orðið er við. 14., 15. og 16. gr. eru allt tengdar greinar og fjalla um skoðanafrelsi, upplýsingarétt og frelsi fjölmiðla. Við leggjum til að 14.–16. gr. verði aftur breytt til þess sem stjórnlagaráðið lagði til en ekki eins og sérfræðingahópurinn lagði til. Samstaða var um það innan meiri hluta nefndarinnar að færa þær greinar til baka til þess sem stjórnlagaráð lagði til. Það væri betur um þær búið svo og þessum markmiðum miklu betur náð fram þannig heldur en eins og sérfræðingahópurinn lagði til.

9. Orðin „í landinu“ í 3. mgr. 19. gr. falli brott.

10. Við 2. mgr. 20. gr. bætist við málsliður svohljóðandi: Með lögum má þó kveða á um slíka skyldu ef það er nauðsynlegt að félag geti sinnt lögmætu hlutverki vegna almannahagsmuna eða réttinda annarra.

11. 4. mgr. 24. gr. falli brott.

Er ég þá búinn að fara yfir tillögurnar sem við gerðum. Í köflunum um skipan embættismanna og dómsvaldið fjöllum við ítarlega um þær röksemdir sem komu þar fram og vangaveltur um ýmislegt annað. Mikilvægt væri, svo dæmi sé tekið, að fyrir lægi að heimilt væri að stofna millidómstig og við fjöllum nokkuð ítarlega um það.

Töluvert var rætt um 31. gr. sem snýr að banni við herskyldu. Ákvæðið er nýmæli en markmið þess er að ekki verði herskylda á Íslandi þótt Íslendingar erlendis geti þurft að þjóna í her. Fram kemur í greinargerð með frumvarpinu að ákvæðið eigi sér stoð í túlkun á viðhorfi þjóðfundar gegn þátttöku Íslands í hernaði og Ísland væri herlaust og hernaðarlega hlutlaust friðarríki. Við bendum á að tillaga um bann við herskyldu kom ekki berum orðum fram á þjóðfundinum heldur var talið ljóst að í þeirri afstöðu sem þar birtist væri hið minnsta falin afstaða gegn rekstri á íslenskum her og þar með stuðningur við bann við herskyldu.

Við tökum undir þau sjónarmið sem koma fram í ákvæðinu en bendum jafnframt á að ákvæðið eigi ekki og geti ekki komið í veg fyrir beitingu neyðarréttar til að kveðja landsmenn til varnar landi og þjóð og bjargar samfélagslegum verðmætum sem og innviðum í neyðartilfellum ef öryggi þjóðarinnar er ógnað. Við vildum taka það sérstaklega fram í umsögninni að við hefðum fjallað ítarlega um þetta og gerðum skýran greinarmun á að banna annars vegar herskyldu en hins vegar að kveðja þjóðvarðlið eða sjálfboðaliða til verkefna, annaðhvort til varna eða verndar verðmætum þegar mikið lægi við og neyðarréttur knýði á um. Þetta töldum við nauðsynlegt að kæmi skýrt fram í okkar áliti ef einhvern tímann þyrfti að skera úr um það.

Þá vildi ég nefna að 30. gr. um bann við afturvirkni refsiákvæða byggist á ákvæði 1. mgr. 69. gr. gildandi stjórnarskrár. Fyrir nefndinni kom fram að fyrirsögn ákvæðisins væri of þröng, það mætti útvíkka hana til samræmis við 7. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Fyrirsögn ákvæðisins er: Bann við afturvirkni refsiákvæða, en fyrirsögn sambærilegs ákvæðis sáttmálans er: Engin refsing án lagafyrirmæla. Bendum við á að þrátt fyrir þetta verður efnisinntaki ákvæðisins í raun betur lýst með tilvísun til banns við afturvirkni refsiákvæða enda felst í því að engin refsing sé gerð án laga. Jafnframt er almennt vísað til banns við afturvirkni refsiákvæða í umfjöllun um sambærileg ákvæði, þar á meðal 7. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Teljum við í meiri hlutanum því fyrirsögnina vera í samræmi við efni ákvæðisins.

Við nefndarmenn ákváðum að skipta því með okkur í 2. umr. að fara yfir hina ýmsu kafla, þá næðum við betri og dýpri yfirferð. Við fjölluðum til dæmis heilmikið um 24. gr. sem snýr að menntun. Markmið ákvæðisins er að tryggja rétt allra til náms í grunnskóla og framhaldsskóla, þó ekki sérskóla, sem uppfylli ákveðin efnisleg viðmið varðandi inntak, og að tryggja öllum sem skólaskylda nær til aðgang að menntun án endurgjalds.

Vildum við benda á í því samhengi að í skýringum stjórnlagaráðs segir að í ákvæðinu felist að menntun er ekki aðeins ætlað að bjóða upp á tilsögn í hefðbundnum námsgreinum heldur einnig að þjálfa nemendur í gagnrýnni hugsun og kenna þeim að þekkja samfélagsleg réttindi og skyldur. Fjallað var heilmikið um hvað fælist í hugtakinu og þeim sjónarmiðum var hreyft fyrir nefndinni að óljóst væri hvort ákvæðið fæli í sér almenna menntun eða menntun á skólaskyldustigi. Bendum við á að ákvæðinu sé einkum beint að grunnskóla- og framhaldsskólastigum til að skýra það. Auðvitað hefur menntun og umfang hennar breyst mikið á umliðnum árum. Fólk er sem betur fer margt hvert meira og minna að mennta sig, endurmennta og símennta langt fram eftir ævinni allri. En þessu ákvæði er sérstaklega beint að börnum og ungmennum og menntun þeirra, skólaskyldu og framhaldsskólanum, og við töldum ástæðu til að taka það sérstaklega fram.

Aðeins almennt um málið. Það er mjög mikilvægt að það ferli sem var sett af stað á sínum tíma gangi til enda. Það væri mikill skaði af því ef málið færi forgörðum og festist inni í þinginu rétt áður en kjörtímabili lyki og við næðum ekki að ljúka þeirri vinnu sem okkur var svo sannarlega falið að gera, bæði í síðustu þingkosningum og aftur með þjóðaratkvæðagreiðslunni þann 20. október síðastliðinn. Að hunsa þann afdráttarlausa vilja sem þar kom fram um að tillögur stjórnlagaráðs lægju til grundvallar nýrri stjórnarskrá væru mjög dapurleg endalok á þessu glæsilega ferli. Það er erfitt að hugsa sér þann skaða sem yrði ef öll þessi mikla vinna og ferli færi forgörðum og frysi hér inni rétt fyrir lok kjörtímabilsins. Ástæða er til að heita því á Alþingi að alþingismenn allra þingflokka leggi sig fram um að ljúka málinu með sóma og gangi til atkvæða eftir 2. umr. þegar umræða er tæmd. Hvort sem sú umræða tekur tvo, þrjá, fjóra eða fimm daga í viðbót er ekki meginmálið, hún þarf auðvitað að taka þann tíma sem þarf þannig að allir þingmenn sem vilja geti tjáð sig. Hér erum við að vinna að því að endurskoða samfélagssáttmálann okkar, og þetta er heildstætt lýðræðisferli. Það er gífurlega mikilvægt að það gangi óslitið og óhindrað til enda.

Hér hafa allir sem að málinu hafa komið lagst á eitt um að það megi verða sem best. Við erum að fjalla um þau mikilvægustu mál sem hvern og einn snerta; ákvæði um réttindi borgaranna, beint lýðræði, auðlindirnar og yfirráðin, stjórnskipanina sjálfa, jafnt vægi atkvæða, eða a.m.k. stór skref í áttina að því, skipan æðstu embættismanna, réttarstöðu hvers og eins. Auðvitað verður frumvarp til stjórnarskipunarlaga og síðan ný stjórnarskipunarlög aldrei óskalisti hvers og eins þingmannanna 63 sem hér eru. Það eru að sjálfsögðu átök um ýmis álitaefni í stjórnarskipunarlögum rétt eins og öllum öðrum stjórnmálum. Fyrr má nú aldeilis fyrr vera. Við skipumst í flokka því að við höfum ólík sjónarmið. Okkar er að ná sem mestri samstöðu og sem mestum samhljómi um niðurstöðuna, eins og rætt var um fyrr í dag, að það sé meiri en ásættanleg málamiðlun um nýjan samfélagssáttmála, að það sé sem breiðust samstaða um nýja stjórnarskrá þó svo að auðvitað sé aldrei hægt að tryggja að allir séu sáttir við allt í slíku.

Í mestallri þeirri umræðu sem ég hef fylgst með í þinginu í kringum þetta mál hafa þingmenn meira og minna haldið fram málefnalegum og sannfærandi sjónarmiðum um ýmis álitaefni og atriði. Ég ber virðingu fyrir öllum þeim ábendingum og skoðunum sem hér koma fram. En við þurfum alltaf eins og í öllum öðrum málum að ná saman að lokum um niðurstöðuna. Ég held að við séum langt komin með það hér.

Eftir allt þetta ferli þar sem þúsundir Íslendinga og síðan þjóðin í þjóðaratkvæðagreiðslu komu að — og eins og ég nefndi í upphafi minnar ræðu markaði þjóðaratkvæðagreiðslan 20. október síðastliðinn algjör þáttaskil í ferlinu, þá urðu straumhvörf í ferlinu — ber þinginu ótvíræð skylda til að ljúka þessu máli. Frá og með þjóðaratkvæðagreiðslu sem og áður hefur þingið unnið hörðum höndum með mjög yfirveguðum og vandvirkum hætti að því að ljúka þessu mikilvæga máli. Það var auðvelt að mikla ferlið og verkefnið fyrir sér og leggja það bara til hliðar, en það var sem betur fer ekki gert. Í öllum aðalatriðum hefur mjög vel tekist til að mínu áliti.

Við getum lengi rökrætt um einstakar tillögur, álitaefni og einstakar breytingar, en við erum komin hér að niðurstöðu sem við teljum viðunandi eða heppilega í langflestum atriðum. Ég held að umræðan þessa tvo daga hafi líka sýnt að vel hafi til tekist og nefndarálit um frumvarpið frá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, um stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, ber svo sannarlega með sér að þetta mikla lýðræðisferli sem hefur staðið óslitið yfir á kjörtímabilinu öllu um endurskoðun á stjórnarskránni er að bera þann ávöxt sem getur verið og á að verða ný stjórnarskrá. Þjóðin mun að sjálfsögðu hafa síðasta orðið í þjóðaratkvæðagreiðslu um nýja stjórnarskrá eftir að Alþingi hefur, nú á næstu dögum og vikum, klárað málið og greitt um það atkvæði í þinginu.