141. löggjafarþing — 76. fundur,  31. jan. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[18:24]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Björgvini G. Sigurðssyni fyrir ágæta ræðu, en reyndar er ég dálítið uggandi yfir ofurtrú hans á þjóðaratkvæðagreiðslunni. Ég hlustaði á viðtal í sjónvarpinu að kvöldi kosningadags við konu sem hafði greitt atkvæði, hún var spurt hvort það hefði verið erfitt. Nei, það hafði ekki verið erfitt. Þau ræddu þetta um morguninn yfir kaffibollanum og tóku ákvörðun um að styðja stjórnarskrána. Það vill svo til að ég eyddi öllum janúar í fyrra í að lesa þessa sömu stjórnarskrá. Ég komst ekki alveg til botns í henni. Ég er ansi hræddur um að það hafi ekki allir tekið ígrundaða og djúpa ákvörðun af þessum 80 þús. kjósendum sem þó greiddu atkvæði.

Mér líður þess vegna illa þegar ég heyri hv. þingmann vísa til þess að þjóðaratkvæðagreiðslan bindi hendur stjórnlagaþingsins, sem er Alþingi, í því að setja sér stjórnarskrá.

Síðan er það spurningin um frumvarpið sem hv. þingmaður flutti. Hann flutti frumvarp um nýja stjórnarskrá. Hún er ekki í samræmi við þessa frægu þjóðaratkvæðagreiðslu. Hún er ekki í samræmi við tillögur stjórnlagaráðs. Helling var breytt að ráðleggingu lögfræðinganefndarinnar. Af hverju í ósköpunum flutti ekki hv. þingmaður tillögu stjórnlagaráðs óbreytta fyrst þjóðaratkvæðagreiðslan hafði svona ógurlega mikið að segja?

Svo gerist það merkilega að sama nefnd, sama fólk, kemur með breytingartillögu við sínar eigin tillögur og breytir aftur baka. Það segir: „Fyrirgefið, ég skildi ekki alveg það sem þjóðin var að fara.“ Eða: „Ég hlýddi of mikið á lögfræðinganefndina.“ Þetta er náttúrlega alveg með ólíkindum. Alveg með ólíkindum. Þegar maður les nefndarálit nefndarinnar um það hvernig hún vingsar fram og til baka, maður verður ekkert voðalega klókur af því.

En varðandi það að þjóðin greiði svo að lokum atkvæði um stjórnarskrána með bindandi hætti, það mun hún aldrei gera. Aldrei. Það veit hv. þingmaður. Í næstu kosningum mun þjóðin greiða atkvæði um nýja ríkisstjórn fyrir næsta kjörtímabil, síst af öllu mun hún greiða atkvæði um stjórnarskrána.