141. löggjafarþing — 76. fundur,  31. jan. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[18:26]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég átti við að þegar Alþingi hefur afgreitt frumvarpið frá sér og ný lög um stjórnskipan hafa verið samþykkt á Alþingi gengur þjóðin til sérstakrar þjóðaratkvæðagreiðslu, að sjálfsögðu. Það mun fylgja með ákvörðun Alþingis og hefur marg verið sagt og lýst yfir að þjóðaratkvæðagreiðsla verði haldin um niðurstöðuna sem hér verður samþykkt áður en við hættum seinni partinn í mars. Það liggur alveg ljóst fyrir að sjálfstæð þjóðaratkvæðagreiðsla verður haldin um hana.

Hvað varðar trú eða ofurtrú á þjóðaratkvæðagreiðslum vitum við öll hvernig það er. Við ákváðum að setja það í hendur þjóðarinnar hvort tillögur stjórnlagaráðsins ættu að liggja til grundvallar nýrri stjórnarskrá eða ekki. Það er kjarni málsins. Það var kjarninn í þjóðaratkvæðagreiðslunni, ásamt því að spyrja um einstök efnisatriði. Niðurstaðan úr atkvæðagreiðslunni var svo dúndrandi skýr, hún var svo afdráttarlaus. Rúm 64% af þeim sem komu á kjörstað (Gripið fram í: Hvað voru margir?) völdu að nýta atkvæðisréttinn. Við þekkjum það alveg frá einstökum fylkjum Bandaríkjanna og Sviss og víðar þar sem beint lýðræði er tíðum viðhaft við úrlausn mála og ákvarðanatöku að þátttakan er ekkert endilega svo mikil í þessum atkvæðagreiðslum. Hún fer oft vel niður fyrir helming o.s.frv., þannig að við getum vel við það unað í þessari atkvæðagreiðslu. Niðurstaðan var svo afdráttarlaus og allir höfðu sömu möguleika á því að mæta á kjörstað.

Það er ekki spurning um blinda trú á þjóðaratkvæðagreiðslunni. Þetta er spurning um að við ákváðum að fara þessa leið, síðan eru engin mannanna verk yfir skoðun eða gagnrýni hafin. Þess vegna var það bara sjálfsagt mál að fara ítarlega yfir tillögur stjórnlagaráðsins til að stilla þetta allt saman af, gæta að samræmi og ýmsu slíku þegar upp var staðið.