141. löggjafarþing — 76. fundur,  31. jan. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[19:18]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu og mjög yfirgripsmikla. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem hv. þingmaður er mjög virkur bæði í umræðum og tillögugerð um stjórnarskipun landsins. Hann boðar hér fleiri tillögur, er býsna hugmyndaríkur og veltir upp ýmsum mögulegum áhrifum þeirra ákvæða sem hér eru lögð til, svo sem að hér sé um að ræða lögleiðingu hústökutilskipana eins og við þekkjum til að mynda frá Hollandi. Það er þó aldeilis ekki svo.

Mig langar á þessum stutta tíma að nefna aðeins eitt af þeim örfáu atriðum sem þingmaðurinn kom inn á, 13. gr., um eignarréttinn, og þá staðreynd að meiri hluti nefndarinnar leggur til að bæði sé tekið inn í 13. gr. það sem áður var og varðar takmarkanir á fasteignakaupum útlendinga og það sem stjórnlagaráð lagði til, að eignarrétti fylgdu skyldur.

Mig langar að vekja athygli hv. þingmanns á bls. 68 í frumvarpinu þar sem segir í greinargerð frá forsendunni að baki því að taka fram að eignarrétti fylgi nokkrar skyldur. Í lögum eru og hafa verið margvíslegar takmarkanir á eignarrétti og hv. þingmaður nefndi eina slíka, skipulagslög. Það má nefna fleiri, eins og hér er gert, lög um mannvirki, vatnalög og annað þess háttar, og eignarrétti eru þess utan settar talsverðar skorður með nábýlisréttinum.

Í raun er röksemdin sú að hér er fyrst og fremst um ákveðna formbreytingu að ræða. Það er árétting á núverandi réttarástandi með þessari viðbót við 13. gr., um að eignarréttindum fylgi skyldur eins og við þekkjum. Hv. þingmaður nefndi þýsku stjórnarskipunina og stjórnlagadómstólinn þar og meira að segja í þýsku stjórnarskránni segir að eignarréttinum fylgi skyldur og að notkun eigna skuli jafnframt þjóna almannaheill. Þetta kom líka til umræðu í stjórnlagaráði.

Ég hygg, frú forseti, að ég sé búin með tímann.

(Forseti (RR): Tölvan telur upp á við.)

Hún telur upp þannig að ég á eftir smástund. Þetta eru þær skýringar, hv. þingmaður, sem er að finna í frumvarpinu sjálfu og hafa verið áréttaðar í fjölmörgum umsögnum og athugasemdum sem hafa komið það eina og hálfa ár sem nefndin hefur haft málið til skoðunar.

Ég kem svo að fleiri athugasemdum og spurningum þingmannsins (Forseti hringir.) á eftir.