141. löggjafarþing — 76. fundur,  31. jan. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[19:21]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þá spyr maður: Til hvers er verið að setja inn breytingu á eignarréttinum fyrst hann er þegar takmarkaður með ýmsum hætti eins og ég nefndi? Hv. þingmaður nefndi fleira. Af hverju er verið að breyta eignarréttinum yfirleitt?

Í 13. gr. stendur: Eignarrétturinn er friðhelgur. Engan má skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji. Þarf til þess lagafyrirmæli og komi fullt verð fyrir.

Er þetta ekki alveg nóg? Þarf að taka fram að honum fylgi skyldur? Þarf að taka það fram? Það sem ég óttast mest er þetta ákvæði í tengslum við 2. mgr. 9. gr. þar sem verið er að búa til rétt annarra sem getur ekki bara skert eignarrétt heldur mannréttindi einstaklings. Þar stendur, með leyfi frú forseta:

„Mannréttindi tryggð með stjórnarskrá þessari má því aðeins skerða að það sé gert með lagaheimild í þágu almannahagsmuna eða til verndar réttindum annarra svo sem samræmist lýðræðishefðum.“

Þegar maður opnar á þessar tvær greinar saman sýnist mér að hústökuhugsun gæti komið til. Það væri hægt að setja lög á Alþingi um að menn skyldu nýta ónýttar eignir, t.d. til útleigu, það yrði sem sagt að leigja þær út. Réttur fólks til að búa í húsnæði, sérstaklega á Íslandi, hlýtur að vera mjög ríkur. Ef menn komast hvergi í húsnæði held ég að þessi opnun á eignarréttinum gæti veikt hann mikið. Þar fyrir utan gæti þetta raunverulega veikt eignarréttinn því að það gerir ekkert annað, það styrkir hann ekki að segja að honum fylgi skyldur.

Ég vara við þessu ákvæði sem lögfræðinganefndin tók út einmitt með vísan í 2. mgr. 9. gr., ef ég man rétt, og hv. nefnd fór eftir í fyrsta frumvarpi sínu.