141. löggjafarþing — 76. fundur,  31. jan. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[20:41]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni fyrir ræðu hans. Hann fór yfir þau atriði sem hefur verið fjallað um og það eru náttúrlega í fyrsta lagi mannréttindakaflarnir og breytingar á þeim og svo auðlindaákvæðið. Þingmaðurinn fór vel yfir það í ræðu sinni hvaða breytingar eru boðaðar þar, t.d. á atvinnufrelsisgrein stjórnarskrárinnar. Það sem kemur fram á bls. 43 í frumvarpinu er svolítið einkennilegt í ljósi þess hvað var ákveðið með þingsályktunartillögu sem 30 þingmenn samþykktu, að stofna skyldi til stjórnlagaráðs eftir að Hæstiréttur var búinn að ógilda þær kosningar en í þeirri þingsályktun kom fram að stjórnlagaráði væri falið að endurskoða stjórnarskrána þar sem þess væri þörf en ekki að skrifa nýja.

Eins og allir vita — og þingmaðurinn sjálfur því hann sat á þingi þegar mannréttindaákvæðin voru endurskoðuð í stjórnarskrá okkar sem kom 1995 — þegar gluggað er í frumvarpið á bls. 43, eins og ég fór yfir áðan, stendur þar, með leyfi forseta:

„Stjórnlagaráð ákvað á einum af sínum fyrstu fundum að endurskoðun mannréttindakafla stjórnarskrárinnar væri eitt þeirra meginverkefna sem ráðið vildi einbeita sér að.“

Telur þingmaðurinn ekki að byrjað hafi verið á öfugum enda þar sem stjórnlagaráð ákvað á sínum fyrsta fundi að ráðast á nýjasta kafla stjórnarskrárinnar? Okkar góðu stjórnarskrá hefur helst verið fundið það til foráttu að hún væri svo gömul, frá árinu 1944, en þarna var ákveðið að byrja á því að umbylta þessum mannréttindaköflum. Komist þetta til framkvæmda skapast hér mikil réttaróvissa, sérstaklega í ljósi þess, virðulegi forseti, að nú hefur komist góð dómaframkvæmd (Forseti hringir.) á þau ákvæði sem um ræðir í stjórnarskránni.