141. löggjafarþing — 76. fundur,  31. jan. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[20:50]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Vigdís Hauksdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Það er ótrúleg dirfska að fara af stað með þetta mál á lokadögum þingsins en það eru kannski vinnubrögðin sem við höfum þurft að taka þátt í í þinginu á þessu kjörtímabili. Hér er raunverulega verið að þvinga stjórnarskrá Vinstri grænna og Samfylkingarinnar í gegnum þingið.

Ég var boðuð á fund í hádeginu í dag hjá samtökum sem kalla sig Ferðafrelsi. Þar eru aðilar innan borðs sem láta sig útivist mjög miklu skipta. Þeir bentu til dæmis á að frumvarpið sem liggur nú fyrir þinginu, frumvarp til laga um náttúruvernd, byggi algjörlega á því að það eigi að alfriða hálendið. Það á ekki að vera hægt að fara upp á hálendið og njóta víðernisins nema fótgangandi. Þegar leið á kynninguna fór ég að hugsa hversu einkennilegt það er að hægt sé að koma svona fram, að þegar stjórnmálaflokkar komist til valda í ríki skuli þeir ætla að breyta ríkinu eftir eigin höfði í ósátt við alla aðra. Það er stór hópur Íslendinga sem er ósáttur við þetta og undirskriftasöfnun er farin af stað. Á meðan á þessum klukkutímafundi stóð í hádeginu söfnuðust á milli 400 og 500 undirskriftir, bara til þess að mótmæla þeirri valdbeitingu sem birtist til dæmis í því frumvarpi.

Virðulegi forseti. Það er ekki einungis frumvarpið sem liggur fyrir hér og er nú til umræðu, það eru meira og minna þau frumvörp sem þessi ríkisstjórn hefur komið með inn í þingið. Þetta byggist allt á hugmyndafræði Vinstri grænna og Samfylkingarinnar, Vinstri grænna í umhverfismálum enda náðu þeir rammaáætlun sinni í gegnum þingið eftir 14 ára samningaferli og sáttaferli og nú eru náttúruverndarlögin það nýjasta.

Virðulegi forseti. Ég hef ekki enn haft tíma til þess að kíkja á fiskveiðistjórnarfrumvarpið sem var dreift af hæstv. atvinnumálaráðherra síðdegis í dag, en mig grunar að þegar ég hef tíma til að lesa það á morgun sé það með svipuðum hætti, að þarna komi kosningaloforð og stefnuskrár vinstri flokkanna til framkvæmda í frumvarpinu. Fiskveiðistjórnarfrumvarpið er sjálfsögðu blekking. Það vita allir í þinginu að það verður ekki fullrætt og er einungis lagt fram til að friða kjósendur þessara flokka því að þeir gáfu út miklar yfirlýsingar fyrir kosningar um að það ætti að breyta kvótakerfinu fyrir hádegi daginn eftir kosningar kæmust þeir til valda. Nú er að verða liðin fjögur ár og lítið hefur gerst í þeim efnum nema, eins og við vitum, að þeir náðu gjaldtökunni á sjávarútveginn í gegnum þingið. Breytingin á fiskveiðistjórnarkerfinu situr enn föst þannig að það er líklega frumvarp sem á að nota í kosningabaráttunni.

Hvað um það. Við ræðum frumvarp til stjórnarskipunarlaga sem er þingmannafrumvarp lagt fram af þingmönnum ríkisstjórnarflokkanna, þ.e. þeir hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir, Álfheiður Ingadóttir, Róbert Marshall, Lúðvík Geirsson, Magnús Orri Schram og Margrét Tryggvadóttir. Þegar ég segi þá þingmenn ríkisstjórnarflokkanna er ég ekki að ýkja neitt þótt þarna séu tveir þingmenn sem eru ekki í Samfylkingunni og Vinstri grænum, en þeir þingmenn styðja málið. Það er athyglisvert að þessi flokksbrot í þinginu skuli ganga fram í lok kjörtímabilsins og verja ríkisstjórnina falli þannig að þeir missi ekki völd sín. Það er athyglisvert að Róbert Marshall hefur skipt um skoðun síðan hann skrifaði undir frumvarpið en hann hefur kynnt að hans ósk sé sú að taka út einhverja nokkra kafla, ná sátt um það og halda svo vinnunni áfram á næsta kjörtímabili og er þar með kominn á skoðun okkar framsóknarmanna. Það tínast því einn og einn úr stjórnarliðinu á okkar skoðun. Þó dugir það ekki til að Björt framtíð ætli að verja ríkisstjórnina vantrausti þannig að vinnan er svolítið tvíbent sem þessi flokksbrot í þinginu eru að fara fram með núna þegar landsmenn kalla á kosningar til að koma ríkisstjórninni frá. Sem betur fer geta landsmenn kosið ríkisstjórnina burt á auglýstum kjördegi. Þá verður stóra þjóðaratkvæðagreiðslan, virðulegi forseti. Nú þegar hafa farið fram tvær þjóðaratkvæðagreiðslur og í raun og sanni hefði ríkisstjórnin átt að fara frá strax í þeirri fyrri, en þessir háu herrar sitja hér enn á bekkjunum fyrir aftan mig og halda í völdin fremur en að hugsa um þjóðarhag.

Það sem mér finnst kannski vanta í umræðuna hjá þeim sem styðja þetta frumvarp er sú hugsun hvað eigi heima í stjórnarskrá. Ég hef svo oft farið yfir það að stjórnarskrá eru grunnlög hvers ríkis, þjóðarsáttarplagg sem ber að virða. Ég ítreka að það á að vera mjög erfitt að breyta stjórnarskrá svo að ákveðin stemning eða bylgja sem myndast í þjóðfélaginu geti ekki skyndilega farið fram með stjórnarskrárbreytingar. Við þurfum ekki að horfa langt frá okkur og ekki langt aftur í tímann heldur þegar Evrópa logaði í stríði. Það getur alltaf komið upp að eitthvað slíkt gerist, að einhver ákveðin öfl eða stjórnmálaflokkur nái það miklum undirtökum í kosningum. Þá er þetta vörn gegn því — neyðarhemill — að erfitt sé að breyta stjórnarskrá þannig að svona afl geti ekki komið fram og breytt grundvelli ríkisins.

Vissulega er þessi vinstri stjórn að reyna að breyta grundvelli ríkisins í einu og öllu. Það er ekki bara verið að skuldsetja þjóðina, leggja miklar og þungar byrðar á herðar íslensku þjóðinni, eins og gerðist með Icesave-samningunum, heldur er líka ruðst inn í sjálfa stjórnskipun landsins því svo virðist sem þau hafi talið að þeirra tími væri kominn, sem betur fer er hann að líða. Ég heiti því að stjórnarskránni verður ekki breytt eins og lagt er til í frumvarpinu því það er verið að setja allt stjórnkerfið í loft upp. Það kom best fram í áliti umboðsmanns Alþingis sem hann skilaði til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, að það væri um grundvallarbreytingu á íslenska þjóðríkinu að ræða. Ég tek undir þau orð. Ég viðurkenni að þetta var ekki orðrétt tilvitnun, ég er ekki með umsögnina hér en það var eitthvað í þá veru. Það er hættulegt þegar stjórnarmeirihlutinn beitir sér af slíku afli til að breyta stjórnarskrá með þessum hætti.

Virðulegi forseti. Ég fer akkúrat yfir ríkisstjórnarmeirihlutann í mínu örstutta nefndaráliti sem ég skilaði eða við skulum kalla það ríkisstjórnarminnihlutann því samkvæmt tölum frá deginum í dag er ríkisstjórnin með 30 þingmenn innan borðs. Svo fer það eftir því hvernig gengur að semja við flokksbrotin hvað það eru margir sem styðja ríkisstjórnina á hverjum degi, þetta fer eftir veðrum og vindum.

Ég þreytist ekki á að benda á að það er brýnt að mikil sátt ríki um breytingar á stjórnarskránni því það er eins og þessir aðilar séu ekki enn búnir að átta sig á því að stjórnarskránni verði ekki breytt nema tvö þing samþykki frumvarpið óbreytt. Það kemur fram í nefndaráliti mínu og það skyldi þó ekki vera að þingmenn þurfi að grípa til þess neyðarúrræðis, nota þann neyðarhemil, að þurfa að fella frumvarp til stjórnarskipunarlaga á nýju þingi. Þá væri það í fyrsta sinn í lýðveldissögunni sem þyrfti að grípa til svo róttækra aðgerða. Ég skil raunverulega ekki hvers vegna ríkisstjórnin gengur ekki að því sáttatilboði okkar sem gengur út á að velja ákveðna þætti sem við getum breytt tímalega séð og eru nauðsynlegir í núgildandi stjórnarskrá og fara þá fram með þær breytingar í sátt svo ekki þurfi að nota neyðarhemilinn á nýju þingi.

Það er alveg klárt miðað við dóm þessarar viku að ríkisstjórnin kemur ekki til með að halda meiri hluta í þinginu og líka alveg ljóst að nýr meiri hluti kemur til með að fella það, ég held þeir sem mest vilja að koma frumvarpinu í gegnum þingið ættu að hugsa aðeins um það. Það er búið að þvæla því fram og til baka í umræðunni í dag, einn þingmaðurinn boðar þjóðaratkvæðagreiðslu, annar vill meina eitthvað annað. Nú eru flokkarnir að reyna að finna út úr því hvernig eigi að þvæla því hér í gegn svo það hafi eitthvert gildi.

Ég minni á að fræðimaður í háskólanum talaði um að ráðgefandi skoðanakannanir um stjórnarskrá væru raunverulega tilraun til að skoðanakúga þingmenn þannig að verið væri að ná fram einhverjum meiri hluta svo þingmenn teldu sig knúna til að fara að þeim vilja sem birtist í viðkomandi ráðgefandi skoðanakönnun eða þjóðaratkvæðagreiðslu. Þau ummæli féllu eftir atkvæðagreiðsluna 20. október þegar spurt var svo galopinna spurninga — það var farið fram með stefnu ríkisstjórnarflokkanna og eina spurningu frá Hreyfingunni — að það var ekki nokkur leið að lesa neinn þjóðarvilja út úr svörunum.

Ég verð að segja að þetta er nokkur sorgarsaga. Það verður fróðlegt fyrir lögfræðinema framtíðarinnar að reyna að átta sig á vilja löggjafans í þessu máli því ég hef aldrei séð fyrr, hvorki í námi mínu í lögfræðinni né í lagasetningu frá Alþingi, að greinargerð frumvarpsins sé boðuð fyrir 3. umr. Það er verið að setja stjórnarskipunarlög, stjórnarskrá, sem öll önnur löggjöf á að byggja á til nútíðar og framtíðar og þá er notuð ný aðferð í lagasetningu sem er óþekkt hér á landi. Það eitt ætti að leiða til þess að þetta mál væri slegið út af borðinu. Þess vegna hvet ég þá sem er annt um góða lagasetningu í þinginu að standa með stjórnarskránni okkar sem er nr. 33/1944 og hrinda því áhlaupi sem vinstri flokkarnir eru að gera að henni. Hún hefur sannað gildi sitt. Hún stóð af sér bankahrunið og Icesave-samningana. Hún hefur staðið tímans tönn frá 1944. Það er ástæðulaust að ráðast á stjórnarskrána líka þótt stjórnarflokkarnir ráðist á grunnstoðir samfélagsins, kunni ekki að forgangsraða og leggi aðallega áherslu á gæluverkefni.

Það sem á heima í stjórnarskrá og það sem á heima í almennum lögum er tvennt ólíkt. Í frumvarpinu er verið að hræra því tvennu saman því að í það eru komin efnisatriði sem eiga heima í almennum lögum. Það sem á að tryggja í stjórnarskrá eru réttindi borgaranna gegn ríkisvaldinu, en svo eru nánari útfærslur eins og t.d. kosningalög sem útfæra þá grunnhugsun sem kemur fram í stjórnarskrá. Það er til dæmis ákvæði um þjóðkirkjuna í núgildandi stjórnarskrá, svo er það útfært nánar í lögum og ákvæði um það, en hér hefur verið búið til mjög ítarlegt plagg sem hefur fengið á sig mikla gagnrýni vegna þess að þar er verið að hræra þessum tveimur þáttum saman.

Í skilabréfi sérfræðingahóps um tillögu stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá sem var skilað 12. nóvember 2012 — það sem hefur hingað til verið kallað lögfræðingahópurinn, en hann var fenginn til að lesa yfir frumvarpið til að reyna að koma því heim og saman að setja lögfræðina inn í það — kemur fram, með leyfi forseta:

„Stjórnarskrá er öðrum þræði lagalega bindandi skjal sem kveður á um réttindi einstaklinga, uppsprettu valds, handhöfn þess og samspil milli valdastofnana. Stjórnarskráin er einnig táknrænt skjal sem endurspeglar grunngildi samfélags og menningu þess. […] Megineinkenni stjórnarskrár sem réttarheimildar samanborið við almenna löggjöf eru einkum að ákvæðum stjórnarskrár er erfiðara að breyta en almennum lögum og að stjórnarskráin bindur hendur löggjafans. Því þarf að vega og meta hvort um sé að ræða svo mikilvæga grundvallarreglu, sem muni eiga við um aðstæður í þjóðfélaginu um langa framtíð, að rétt sé að ljá henni sess í stjórnarskrá. Almennt séð leiðir af þessu mati að í stjórnarskrá eiga ekki að vera nákvæm útfærsluatriði og ekki ákvæði sem líklegt er að taki tíðum breytingum. Í einhverjum tilfellum kann að vera réttlætanlegt að útfæra tiltekin atriði nákvæmlega, ekki síst ef ætlunin er sú að tryggja að almenni löggjafinn fari ekki á svig við grundvallaratriði. Stjórnarskránni er ætlað að kveða með tiltölulega almennum hætti á um grundvallarreglur réttarkerfisins. Óhjákvæmileg afleiðing þessa er sú að efnislegt inntak stjórnarskrárákvæða þarf gjarnan að mótast nánar og skýrast í framkvæmd og með hliðsjón af túlkun dómstóla. Með tímanum skjóta þannig stjórnarskrárákvæðin dýpri rótum í réttarkerfinu og óvissa um inntak þeirra minnkar. Í ljósi þessa er almennt séð ástæða til þess að fara varlega í breytingar á ákvæðum stjórnarskrár, er mótast hafa í framkvæmd, ef ekki liggur skýrt fyrir að slíkar breytingar séu til bóta.“

Virðulegi forseti. Þarf að segja meira? Þetta er beint upp úr skilagrein lögfræðiteymisins sem var fengið til að lesa yfir frumvarpið sem var lagt fram í þinginu. Þarna er varað við öllum þeim þáttum sem birtast í þessu frumvarpi. Sérstaklega er ákvæðið að stjórnarskráin skuli binda hendur löggjafans mjög mikilvægt. Það er gert til að löggjafinn geti ekki farið út um víðan völl og sett almenn lög sem stangast á við stjórnarskrána. Það er munurinn á því sem ég var að fara yfir áðan, hvað á heima í stjórnarskrá og hvað á heima í almennum lögum.

Það hafa fallið hæstaréttardómar þar sem löggjafinn hefur farið fram úr sér og sett lög í þinginu sem stangast á við stjórnarskrána. Nú síðast var þessi ríkisstjórn dæmd í Hæstarétti nákvæmlega fyrir það að setja afturvirk lög með vaxtaákvæðum Seðlabankans þegar gengislánadómarnir féllu. Meiri hlutinn í þinginu fór þá fram með lög sem stönguðust á við stjórnarskrána — ríkisstjórnin sat samt af sér þann dóm og situr enn — og Hæstiréttur dæmdi að lögin virkuðu afturvirkt sem er óheimilt samkvæmt stjórnarskránni. Stjórnarskráin er því mikilvægt plagg til að vernda réttindi borgaranna í landinu en því er öllu hrært saman í frumvarpinu og lögfræðiálitið að engu haft. Þeir segja einmitt líka í kaflanum hér í lokin að með tímanum skjóti stjórnarskrárákvæðin dýpri rótum vegna þess að það er komin dómaframkvæmd á ákvæðin.

Eins og ég fór yfir í andsvari áðan við hv. þm. Einar K. Guðfinnsson er það óskiljanlegt að stjórnlagaráð skyldi hafa ráðist fyrst í að umbylta og umskrifa mannréttindakaflann sem hefur fengið á sig góða dómaframkvæmd, að vísu með ærnum kostnaði t.d. fyrir einstakling sem hefur sótt mál á hendur ríkinu þegar hann telur að brotið hafi verið á rétti sínum gagnvart stjórnarskrá en þau mál eru nokkur og allt saman er það með þessum hætti. Það er ekki tekið tillit til þess þótt það hafi verið meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar sem ákvað að kalla þennan hóp saman til að fara yfir lagatæknilegt álagspróf eins og það var kallað en ég hef aldrei heyrt af því fyrr en það var fundið upp af meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Svo eru það líka orð hæstv. forsætisráðherra þegar hópurinn var búinn að skila af sér, að þarna hafi frumvarpið staðist lögfræðilegt skoðanapróf en samt hefur meiri hlutinn lagt fram breytingartillögur upp á 40 liði fyrir 2. umr.

Ég ætla að nefna tvö dæmi um það sem er líka alvarlegt í frumvarpinu og algjörlega órætt í samfélaginu. Það er hægt að gera breytingartillögur við allar greinar, út af því gerði ég það ekki því ég tel það ekki mitt hlutverk að skrifa nýja stjórnarskrá frekar en hlutverk stjórnlagaráðs, en ég ætla að nefna tvö dæmi því að tími minn er farinn að styttast.

Það sem kemur fram í 5. gr. er alveg splunkunýtt. Þar er sett inn í frumvarpið, órætt í samfélaginu, að einkaaðilar skuli eftir því sem við á virða þau réttindi sem kveðið er á um í II. kafla frumvarpsins, sem er algjörlega nýtt ákvæði. Stjórnlagaráð telur að markmið þessa ákvæðis kveði á um gildissvið stjórnarskrárinnar og þar með skyldur almennings gagnvart henni. Það veldur því að einkaaðilar geta farið í mál hver gegn öðrum á grundvelli réttinda sem byggjast á stjórnarskránni, sem er hugsanafeillinn í þessu vegna þess að einkaaðilar eru verndaðir af stjórnarskrá gagnvart ríkinu en geta svo farið í málsókn hver gegn öðrum samkvæmt almennum lögum. Þetta ákvæði var sótt hvorki meira né minna en til Suður-Afríku. Svo er verið að tala um að stjórnarskráin okkar sé ekki íslensk. Það eru margar lagagreinar sem eru sóttar til Suður-Afríku og landa í heimsálfum sem við höfum aldrei borið okkur saman við í löggjöf. Við horfum mjög til Norðurlandanna. Við höfum horft til Evrópusambandsins eftir að við tókum upp EES-samninginn en þetta er alveg ný lagatúlkun. Þá spyr ég, virðulegi forseti, þegar mannréttindakaflinn byggir meira og minna á lagastjórnarskrám Suður-Ameríkuríkja, hvað er íslenskt við þessa stjórnarskrá? Þetta er alveg hreint ótrúlegt. Það á að setja þetta inn þegar það er algjörlega órætt í samfélaginu hvort það sé vilji til þess að gera það svona. Manni er svo sem hætt að koma á óvart hvernig þetta er keyrt áfram og að þær ábendingar og viðvaranir sem hafa komið frá fræðimönnum varðandi hvaða duldu hættur er að finna í frumvarpinu skuli vera hunsaðar.

Annað sem er athyglisvert er að búið er að setja inn hin svokölluðu þriðju kynslóðar réttindi. Þau eru alveg órædd í íslensku samfélagi eins og það að einkaaðilar geti höfðað mál á hendur öðrum einstaklingi á grundvelli réttinda sem byggjast á stjórnarskránni einni saman. Til að útskýra hvað þriðju kynslóðar réttindi eru verð ég að lesa hvað þessar þrjár kynslóðir mannréttinda þýða, á hverju þau byggja, hvernig fyrstu kynslóðar mannréttindi og annarrar kynslóðar mannréttindi eru nú varin í stjórnarskrá og svo þá breytingu þegar þriðju kynslóðar réttindi koma inn að tillögu stjórnlagaráðs og hver þau eru.

Með leyfi forseta stendur á bls. 44 í frumvarpinu:

„II. Þrjár kynslóðir mannréttinda.

Stjórnlagaráð fjallaði um greiningu mannréttinda í þrjár kynslóðir. Samkvæmt henni tilheyra borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi fyrstu kynslóðinni. Oft er vísað til þeirra sem frelsisréttinda eða neikvæðra réttinda. Þeirra á meðal má t.d. telja tjáningarfrelsi, trúfrelsi og kosningarrétt, sem og frelsi undan pyndingum. Þessi réttindi eru meðal mikilvægustu réttinda í mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna frá 1948, en þeim er m.a. einnig lýst í mannréttindasáttmála Evrópu og alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi. Efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi teljast til annarrar kynslóðar mannréttinda. Með þeim er lögð áhersla á rétt allra til viðunandi lífsskilyrða og réttindi ólíkra hópa til sambærilegrar meðferðar. Þessi réttindi eru stundum kölluð jákvæð réttindi sem vísar til þess að þau leggi athafnaskyldur á ríkið í ríkari mæli en fyrstu kynslóðar réttindi. Til þeirra teljast t.d. rétturinn til atvinnu og mannsæmandi vinnuskilyrða, heilbrigðisþjónustu og menntunar. Þessum réttindum er m.a. lýst í 22.–27. gr. mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna, í félagsmálasáttmála Evrópu og í alþjóðasamningi um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi.“

Þessi réttindi þekkjum við öll og til dæmis er vísað í þegar er verið að leggja skyldu á ríkið, að allir eigi rétt á heilbrigðisþjónustu og það er til að mynda í núgildandi stjórnarskrá að öllum skuli tryggð framfærsla.

Þá er ég komin að þeirri skýringu sem snýr að þriðju kynslóð mannréttinda sem ég fór yfir áðan og er algjörlega órædd í samfélaginu, hvort við eigum að binda þau í stjórnarskrá eða hafa þau með sem stefnumarkmið til framtíðar því þriðju kynslóðar réttindi eru meira jákvæðar yfirlýsingar, stefnumörkun stjórnmálaflokka. Þetta er svona hlaðborð með fallegri framtíðarsýn og er lýst svona í frumvarpinu, með leyfi forseta:

„Þriðja kynslóð mannréttinda er sennilega minnst þróuð og á sér enn sem komið er litla beina stoð í texta alþjóðlegra mannréttindasáttmála. Þessi flokkur réttinda er ekki síður talinn tilheyra hópum manna og samfélögum en einstaklingum. Þá eru þau ólík þeim réttindum sem heyra til hinna kynslóðanna að því leyti að vernd þeirra tengist ekki aðeins skyldum ríkisvaldsins og eftir atvikum einstaklinga, heldur getur hún einnig verið háð alþjóðlegri samvinnu. Til þessarar kynslóðar heyra t.d. réttur til þróunar, friðar, heilbrigðs umhverfis og jafnréttis kynslóðanna.“

Þegar maður skoðar stefnuskrá Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og Samfylkingarinnar hljómar þetta kunnuglega, að það sé byggt á þessum grunni, þeirri framtíðarsýn að allir eigi sér hugsanlega rétt. Ég vil minna á það stendur í frumvarpinu að þau réttindi eigi enn sem komið er litla beina stoð í texta alþjóðlegra mannréttindasáttmála, hvað þá í stjórnarskrá ríkja og hvað þá í stjórnarskrá norrænna ríkja sem eru tæpast farin að huga að þeim réttindum því að við getum uppfyllt þau með stefnuyfirlýsingu með þingsályktunartillögum og þau eiga tæpast heima í stjórnarskrá.

Ég minni á að með þessari tillögu er verið að setja nýjar byrðar á herðar íslenska ríkinu, ákvæði sem líklega verður látið reyna á fyrir dómstólum. Ég spyr á móti: Hver er gagnaðilinn í þessu máli? Ekki getur heilbrigt umhverfi sjálft farið í mál við ríkið, ef þið skiljið hvað ég meina. Þetta á ekki heima í stjórnarskrá því henni er fyrst og fremst gert að verja mannréttindi þegnanna í því landi sem viðkomandi stjórnarskrá er í gildi.

Virðulegi forseti. Svona get ég lengi haldið áfram. Ef ég ætti að fara nákvæmlega í gegnum þetta frumvarp lið fyrir lið mundi árið líklega tæpast duga því svona athugasemdir eru við nánast hverja einustu grein frumvarpsins. Ég ákvað að skila örlitlu nefndaráliti því ég eins og ég sagði áðan treysti mér ekki til að fara í það á svo stuttum tíma. Stjórnarandstöðunni var gefinn kostur á því að skila nefndaráliti á tveimur dögum og það er ekki hægt að skrifa nýja stjórnarskrá á tveimur dögum, enda ætlaði ég mér aldrei að gera það. Það eru svo miklir gallar á frumvarpinu að það er brýnt að það verði lagt til hliðar.

Ég ítreka þann vilja minn og þá skoðun að það verði sest niður í þinginu sem fyrst og komist að samkomulagi um hvað þurfi að fara í stjórnarskrá fyrir komandi kosningar. Ég lýsi því yfir og hef sagt áður að ég er tilbúin til að vera meðflutningsmaður þingsályktunartillögu sem kveður á um að það fari fram vinna við að endurskoða okkar góðu stjórnarskrá á komandi kjörtímabili, þannig að vinnan sem fer fram á því kjörtímabili verði í samfellu við að við þurfum að breyta stjórnarskránni eins og hún stendur í dag en ekki að skrifa nýja.