141. löggjafarþing — 76. fundur,  31. jan. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[21:23]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni fyrir andsvarið því ég var ekki búin að fara yfir hvað kemur fram í minnihlutaáliti mínu orðrétt. Með leyfi forseta, ætla ég að lesa upp það sem stendur um miðbik nefndarálitsins, því ég tel að það svari spurningunni varðandi vinnubrögðin. Það hljóðar svo:

„Annar minni hluti telur þetta þingmannafrumvarp til stjórnarskipunarlaga um stjórnarskrá lýðveldisins Íslands svo gallað að ekki sé gerlegt að leggja fram breytingartillögur við það án þess í raun að skrifa nýtt frumvarp með fullbúinni greinargerð.“

Þetta lýsir ástandinu frumvarpsins svo ósköp vel. Ég tel að það sé ekki þingtækt til 2. umr. Ég hef talað um að þetta sé eins og áfangaskýrsla í vinnu á löngu ferli. Það sést líka á því að flutningsmenn frumvarpsins hafa boðað að koma með greinargerð með frumvarpinu í þingið fyrir 3. umr. Þetta er alveg galið og það er svo sorglegt að ekki skuli vera til stofnun í þinginu sem gæti komið í veg fyrir slíkt. Þingmanninum er kunnugt um að ég hef lagt fram frumvarp um að stofna lagaskrifstofu Alþingis. Það er sorglegt að ekki skuli vera einhver neyðarhemill í þinginu sem tekur frumvörp til efnislegrar og lagatæknilegrar yfirferðar svo að þingmenn þurfi ekki að eyða tíma sínum og kröftum í að ræða dag eftir dag ónýt frumvörp. Þetta er ekki fyrsta frumvarpið sem kemur þannig í þingið frá ríkisstjórninni. Við skulum bara taka nýjasta dæmið, Icesave-samningana. Því miður hefur þetta mál algjörlega sömu einkenni og Icesave I, Icesave II og Icesave III, en samt er þjösnast áfram með málið. Ég held að ríkisstjórnin viti innst inni að þetta mál (Forseti hringir.) er ekki fullbúið.