141. löggjafarþing — 76. fundur,  31. jan. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[21:28]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er einmitt þetta sem þingmaðurinn fór yfir sem ég hef verið að gagnrýna. Greinargerð með lagafrumvarpi getur ekki byggst á söguskýringum, heimspeki og sagnfræði. Greinargerð er lögskýringargagn og verður að byggja á lögfræði. Það er líklega vegna þess sem flutningsmenn frumvarpsins eru núna að bregðast við á milli 2. og 3. umr., að koma einhverri lögskýringargreinargerð á einhvern hátt inn í öll þessi plögg, en bara í þessari umræðu fylgja málinu tæpar 600 síður Ég hef spurt: Hvar á slík greinargerð að koma inn í frumvarpið?

Hjá dómstólum, ef mál kemur fyrir dóm, er fyrst litið til lögfræðitextans sjálfs, því sem stendur í lögunum. Dugi það ekki fara dómarar í greinargerð, því að greinargerð er lögskýringargagn. Finnist ekki úrlausn á málinu þar og eitthvað er óskýrt er farið í nefndarálit meiri hlutans til að reyna að finna út hver vilji þingsins var þegar lagasetningin fór fram. Það er tekið tillit til minnihlutaálita og svo þarf stundum að fara í þingræður. Það er með ólíkindum að ekki skuli einu sinni vera til tæk greinargerð með frumvarpinu sem er hægt að nota sem lögskýringargagn fyrir dómstólum. Það gengur ekki.

Þingmaðurinn spurði í fyrra andsvari hvaða leið ég sæi út úr þeim ógöngum sem þessir flokkar hafa komið þinginu í eina ferðina enn. Ætla ég að lýsa því enn einu sinni yfir að tilboð okkar Framsóknarflokksins stendur um að setjast niður með ríkisstjórnarflokkunum, finna út hverju þarf að breyta og er nauðsynlegt að breyta og vinna að þeim málum og endurskoða svo stjórnarskrána á næsta kjörtímabili. Halda áfram að endurskoða stjórnarskrána á næsta kjörtímabili. Það er eina leiðin út úr þessari ófæru að mínu mati.