141. löggjafarþing — 76. fundur,  31. jan. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[22:00]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Ármannssyni fyrir ræðuna. Þar sem fyrri hluti ræðunnar fjallaði aðeins um kosningakaflann langar mig örlítið til að spyrja þingmanninn út í breytingartillögurnar sem meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar hefur lagt fram varðandi þann kafla því að mér finnst gæta mikilla andstæðna í honum. Að mínu mati, svo það sé sagt strax, þá á að vera einfalt ákvæði um kosningar til Alþingis í stjórnarskránni en útfærsla alþingiskosninga á að vera í sérlögum.

Mig langar til að spyrja þingmanninn að því sem birtist í þessari breytingartillögu. Í fyrsta lagi skal atkvæði kjósenda alls staðar á landinu vega jafnt eftir því sem frekast er unnt þannig að þar er verið að jafna atkvæðisrétt. Í öðru lagi á kjósandi að geta valið á lista eða einstaka frambjóðendur í persónukjöri þannig að þar er komið inn á persónukjör. Í þriðja lagi skal úthlutun þingsæta vera í sem fyllsta samræmi við atkvæðisstyrk stjórnmálasamtaka, lista og frambjóðenda. Í fjórða lagi skal kveðið á um í kosningalögum að sem jafnast hlutfall kvenna og karla skuli vera á Alþingi. Spurningin er því þessi: Þar sem atkvæðavægi á að vera jafnt og fara í kosningar með það, það á að vera persónukjör og jafnvel á að þurrka út kjördæmamörk þá er kjósandi búinn að fara í gegnum mikla síu í vali á þann lista sem hann kýs, hvernig er þá hægt að breyta úrslitum alþingiskosninga í lokin með því að jafna hlut kvenna og karla á listunum þegar kjósendur eru búnir að gefa skýrt upp hverja þeir vilja sjá?