141. löggjafarþing — 76. fundur,  31. jan. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[22:05]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég get alveg tekið undir að það hefur orðið vakning hvað varðar að reyna að jafna sem frekast er unnt hlutfall kvenna og karla á framboðslistum flokkanna. Þá verðum við líka að láta þann vilja speglast í kosningum og treysta kjósendum fyrir því að kjósa á þann hátt þegar persónukjör er að valið á milli kynjanna verði nokkuð jafnt. Á þeim grunni, miðað við hvað það er orðin almenn hugsun að velja á þennan hátt, er þá ekki afar einkennilegt að stjórnarskrárbinda þessa reglu, eins og gert er ráð fyrir í frumvarpi þessu, vegna þess að stjórnarskrá verður ekki breytt? Standi þetta ákvæði óhaggað og fari inn í stjórnarskrá og mikill meiri hluti kvenna tekur síðan sæti á Alþingi — þetta stendur þarna og á að vera stjórnarskrárbundið eftir þessa sorteringu, fyrst jöfnun atkvæðisréttar, svo persónukjör, því næst hlutfall landslista, kjördæmalista o.s.frv. — á þá fara að breyta kosningaúrslitunum eftir á? (Gripið fram í.) Ég er til dæmis búin að fara í gegnum þessa síu sem kona, (Gripið fram í.) fara í gegnum alþingiskosningar, og svo þegar upp er staðið og úrslit liggja fyrir þyrfti ég þá að víkja af þingi eftir lýðræðislegar alþingiskosningar og (Gripið fram í.) hleypa karlmanni að? Óskaplega eru mikil hróp í þingsalnum, frú forseti. Það skyldi þó ekki vera að flutningsmenn efuðust eitthvað um þessa tillögugrein.