141. löggjafarþing — 76. fundur,  31. jan. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[22:07]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er nokkuð snúið. Reglurnar sem eru tilteknar í fyrri hluta þessa ákvæðis í 39. gr. snúa að því hvernig kosningakerfið er upp byggt. Gert er ráð fyrir að kosningakerfið verði þannig upp byggt að í því endurspeglist tiltölulega jafnt vægi atkvæða, tiltölulega jöfn útkoma flokka í samræmi við kjörfylgi þeirra og að kosningakerfið geri ráð fyrir persónukjöri, landslistum og kjördæmalistum. En þar sem talað er um jafna stöðu kynjanna, eða jafnari stöðu kynjanna, er að því er virðist ekki verið að vísa til kosningakerfisins heldur hugsanlega annarra laga sem geta haft áhrif þar á. Ég hef heyrt sjónarmið meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar um að það eigi með annarri löggjöf að hafa áhrif í þessa átt, ekki í kosningakerfinu sjálfu. Þá mundi maður segja sem svo að staða þessa tiltekna atriðis, þessarar tilteknu meginreglu í ákvæðinu, vekti auðvitað spurningar því að eins og þetta ákvæði er lesið í 39. gr., svo breytt, má ætla að það fjalli um kosningakerfið og að jafnt vægi kynjanna, eða jöfn staða kynjanna, eigi að endurspeglast í kosningakerfinu. Ég á dálítið bágt með að átta mig á því hvernig það á að gera það þó að það séu vissulega til leiðir með löggjöf, fjárframlög til stjórnmálaflokka eða hvað annað sem kemur kosningakerfinu (Forseti hringir.) sem slíku ekki við en getur haft áhrif á stöðu kynjanna.