141. löggjafarþing — 76. fundur,  31. jan. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[22:10]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Það er aldeilis furðulegt að forseti skuli hugsa sér að fresta nú fundi og halda ekki áfram umræðum um þetta mikla og stóra mál þegar mælendaskrá er löng og umræðan rétt nýhafin. Það er enn furðulegra í ljósi þess að á morgun er ekki fundað á Alþingi og næsti fundur Alþingis verður að tíu dögum liðnum. Ég geri ekki athugasemd við það þegar fundartími er úti og mælendaskrá er löng að umræðum sé frestað en hér var tilkynnt í morgun án þess að nokkur mótmælti því að fundað yrði lengur en þingsköp leyfa, þó ekki lengur en til miðnættis. Nú er klukkan rétt rúmlega tíu og ég hvet til þess að staðið verði við það sem forseti sagði hér í dag og haldið áfram fundi enda er næsti maður á mælendaskrá í salnum og þess albúinn að taka til máls, sýnist mér.