141. löggjafarþing — 77. fundur,  11. feb. 2013.

sorpbrennsla á Kirkjubæjarklaustri.

[15:07]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Frú forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. umhverfisráðherra. Á síðasta ári rann út starfsleyfi sorpeyðingarstöðvar í Skaftárhreppi, á Kirkjubæjarklaustri, og hafnaði hæstv. ráðherra beiðni sveitarfélagsins um að endurnýja starfsleyfið með andmælarétti sem hreppnum var veittur til 11. janúar 2013. Sveitarfélagið skilaði ítarlegri umsögn til ráðuneytisins, dagsettri 9. janúar 2013, þar sem andmæli eru færð ásamt því að tímasett aðgerðaáætlun er lögð fyrir, bréf frá sóttvarnalækni og ýmis mjög sterk rök fyrir því að sveitarfélaginu verði veitt undanþága til að gera endurbætur á sorpbrennslunni fyrir 2015. Er ekki síst tekið tillit til þess að fjárhagsstaða hreppsins hefur verið með þeim hætti að það er ógjörningur fyrir sveitarfélagið að ráðast í þessar framkvæmdir og endurbætur innan þrengri tímamarka.

Hæstv. ráðherra hefur ekki svarað þessum andmælum og voru á föstudag liðnar fjórar vikur frá því að Skaftárhreppur sendi bréfið. Því leikur mér forvitni á að vita hvort svars sé að vænta frá hæstv. ráðherra og hvort við getum ekki örugglega búist við stuðningi til handa þessu litla en merkilega sveitarfélagi í þeim vanda að koma á úrbótum í þessu máli.