141. löggjafarþing — 77. fundur,  11. feb. 2013.

sorpbrennsla á Kirkjubæjarklaustri.

[15:10]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni hennar vakt í þessu máli og spurninguna sem varðar það erindi sem liggur nú fyrir ráðuneytinu eins og hún rakti í fyrirspurn sinni, þ.e. að bregðast við þeim andmælum sem sveitarfélagið lagði fram fyrir tilskilinn tíma, þann 11. janúar sl.

Ég vil segja hér almennt að eitt af lögboðnum hlutverkum sveitarfélaganna er að annast sorphirðu og sorpmál. Um Skaftárhrepp gildir hið sama og um önnur sveitarfélög. Eins og kom hins vegar fram í máli þingmannsins og hefur verið lýðum ljóst um nokkurt skeið eru mörg sveitarfélög mjög illa sett að því er varðar fjárhagsstöðu. Er Skaftárhreppur eitt þeirra sveitarfélaga. Því hefur það verið mín afstaða í þessu máli að við þyrftum að leita leiða til að leysa málin til framtíðar, þ.e. sveitarfélagið fyrir sinn hatt og síðan stjórnvöld á landsvísu sem hafa auðvitað stefnumótun og heildarframtíðarsýn með höndum að því er varðar sorpmál eins og önnur umhverfismál. Ég fullyrði og vil fullvissa hv. þingmann um að það er ekkert annað á dagskrá í umhverfisráðuneytinu hvað þetta mál varðar en það að leiða málið farsællega til lykta til framtíðar.

Í þessum fyrirspurnatíma fer ég ekki yfir það í smáatriðum með hvaða hætti hægt er að nálgast úrlausnina en ég tel að í ljósi erfiðrar stöðu sveitarfélagsins þurfum við að leita skapandi lausna til að komast að farsælli niðurstöðu. Ég mun leggja mitt af mörkum til að það verði og lausn er vonandi í sjónmáli á allra næstu dögum eða vikum.