141. löggjafarþing — 77. fundur,  11. feb. 2013.

sorpbrennsla á Kirkjubæjarklaustri.

[15:12]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Ég vil leyfa mér að túlka það svo að skapandi lausnir séu þær að leysa þetta vandamál þannig að Skaftárhreppur fái framlengingu á starfsleyfinu. Það er rétt sem hæstv. ráðherra sagði, það þarf að leysa þetta mál til framtíðar og það er nákvæmlega það sem Skaftárhreppur lagði til í tímasettri aðgerðaáætlun sem fylgdi með andmælunum þaðan. Það er einmitt lausn til framtíðar þannig að ég leyfi mér að túlka orð hæstv. ráðherra þannig að sú framtíðarlausn gæti verið akkúrat sú lausn sem við erum að horfa framan í.

Ég spyr hæstv. ráðherra beint út um það vegna þess að það er eina framtíðarlausnin sem ég sé. Það er alveg rétt að ein af frumskyldum hvers sveitarfélags er að hirða sorp frá íbúum sínum og það er nákvæmlega það sem hreppnum (Forseti hringir.) er um megn að gera verði ekki gripið til þess ráðs að framlengja starfsleyfið. Ég spyr því hæstv. ráðherra: Er það ekki lausnin? (Forseti hringir.) Hæstv. ráðherra hefur þá lausn í hendi sér og hún hefur ekki fordæmisgildi fyrir önnur sveitarfélög.