141. löggjafarþing — 77. fundur,  11. feb. 2013.

undanþága fyrir sorpbrennsluna á Klaustri.

[15:19]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Við þingmenn Suðurkjördæmis áttum ágætan fund með sveitarstjórn og hæstv. ráðherra í desember þar sem farið var yfir þessi mál. Það er ekki sama fordæmið með Vestmannaeyjabæ og við fullyrðum að Vestmannaeyingar mundu alveg hikstalaust bakka ráðherrann upp í því að koma til móts við vini sína í Skaftárhreppi. Mér finnst þetta nokkuð léttvægt hjá ráðherranum.

Ráðherra hafði líka orð á því að þetta tæki eina 12 mánuði. Ég held að það sé rangt. Ég held að aðlögunartíminn hafi verið mun styttri, en úr því að við erum farin að tala um mánuði, lítil sveitarfélög og tækifæri á breiðari grunni er kannski rétt að spyrja hæstv. ráðherra í leiðinni hvað líði staðfestingu aðalskipulags Mýrdalshrepps sem hefur legið á borðinu hjá ráðherra núna í fjóra eða fimm mánuði. Ég held að það sé út af ágreiningi um veglínu. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort til standi að staðfesta það á næstu dögum og þá í anda þess sem (Forseti hringir.) 80% íbúa þess sveitarfélags óska eftir, sem kemur fram í aðalskipulagi þess og er í samræmi við umsögn Vegagerðarinnar.