141. löggjafarþing — 77. fundur,  11. feb. 2013.

hagvöxtur.

[15:28]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég held að það sé vænlegast að ræða þetta yfirvegað. Ég var á ákaflega ánægjulegum fundi í morgun frá kl. 10–13, fyrsta stóra fundi samráðsvettvangs um aukna hagsæld þar sem formenn allra stjórnmálaflokka, aðilar vinnumarkaðarins, aðilar úr fræðasamfélaginu og fjölmargir fleiri sátu saman og ræddu samræmdar aðgerðir til að stuðla hér að vexti og hagsæld í framtíðinni. Það var annar andi í þeirri umræðu en hv. þm. Illugi Gunnarsson hefur uppi núna.

Það eru engin töframeðul til. Það er ekki hægt að taka upp úr vasa sínum einhver skyndiviðbrögð við því þegar efnahagsástandið þróast til hins verra í okkar helstu viðskiptalöndum þar sem 70% af okkar útflutningsmörkuðum liggja og við vitum öll að það kemur til með að hafa áhrif á okkur fyrr eða síðar. Ef töfralausnirnar væru tiltækar væru þær væntanlega teknar upp úr vösum í Bretlandi þar sem er samdráttur undir forustu ríkisstjórnar hægri manna á þeim bæ. (Gripið fram í.) Ívilnunarlögin eru þó til dæmis að skila því að undirritaður var einn nýr fjárfestingarsamningur á þeim grunni á dögunum (Forseti hringir.) og nokkrir eru í pípunum, þar á meðal stórar framkvæmdir í Suður-Þingeyjarsýslu og við Húsavík. Við vonumst til þess að innan skamms skýrist hvort af þeim framkvæmdum getur orðið á þessu ári.