141. löggjafarþing — 77. fundur,  11. feb. 2013.

málefni heimilanna.

[15:35]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Nú veit ég ekki hvaða setningu hv. þingmaður vitnar þarna í. (Gripið fram í.) Varðandi námslánin, eigum við þá ekki að ræða hvernig námslánin eru og námslánafyrirkomulagið á Íslandi? Þau eru með stórlega niðurgreiddum vöxtum upp á 1% og ríkið borgar tæpan helming af árlegum kostnaði lánasjóðsins beint í framlög í þetta kerfi svo ekki sé komið óorði á það líka eins og alla skapaða hluti. Ég tel að lögin um Lánasjóð íslenskra námsmanna séu ein framsæknasta félagsmálalöggjöf sem hefur verið sett í landinu. Hún á stóran þátt í því að tryggja hér jafnrétti til náms og hefur verið betrumbætt og reyndar stendur til að gera enn betur í þeim efnum. Framfærslugrunnur námslána hefur verið hækkaður umfram verðlag á tímabili þessarar ríkisstjórnar þannig að ég tel að við þurfum ekki að bera kinnroða yfir einu eða neinu af því sem snúið hefur að námsmönnum að þessu leyti á undanförnum árum.

Ég er auðvitað áhugasamur um að skoða allar góðar hugmyndir hvaðan sem þær koma fram og þess vegna hlýddi ég með miklum áhuga á formann Framsóknarflokksins í morgunútvarpinu útlista það hver hefði orðið afurð og niðurstaða þingflokks framsóknarmanna í þessum efnum. Ég verð að viðurkenna að ég átta mig ekki alveg (Forseti hringir.) á hver niðurstaðan varð því að þegar að var spurt voru engar tölur nefndar eða beinar útfærslur lagðar á borðið. Er það þá hugsanlega þannig að Framsóknarflokkurinn sé í svipaðri stöðu og fleiri í þessum efnum að átta sig á að það er hægara sagt en gert að taka á þessum flóknu og erfiðu málum?