141. löggjafarþing — 77. fundur,  11. feb. 2013.

samskipti við FBI.

[15:36]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Á morgun munum við í allsherjar- og menntamálanefnd vonandi ræða við hæstv. innanríkisráðherra og innanríkisráðuneytið um það hvernig samskiptin voru þegar samvinnu við FBI var hætt og þeim vísað frá landi varðandi það mál sem hefur verið hér til umfjöllunar. Ég ætla að nýta þetta tækifæri til að ræða þetta mál við hæstv. utanríkisráðherra og fá að spyrja nokkurra spurninga.

Það liggur alveg ljóst fyrir að við Íslendingar eigum ekki síst á sviði lögreglumála í samskiptum við mörg erlend ríki, við vinaþjóðir okkar, hvort sem við tölum um Danmörku, Bretland eða ýmsar þjóðir innan Schengen en ekki síður við það ríki sem við segjum fyllilega að sé vinaþjóð okkar, þ.e. Bandaríkin.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra — því að þegar maður les yfir ferli málsins vakna ýmsar spurningar — í fyrsta lagi hvort það sé viðtekin venja þegar ríkissaksóknari fer með rannsókn ákveðinna mála og hefur meðal annars haft samskipti við erlend lögregluyfirvöld til að fara yfir ákveðin mál að utanríkisráðherra heimili slíkar aðgerðir, hvort utanríkisráðuneytið fái alla jafna slíkar beiðnir inn á borð til sín eða er þetta einstakt tilvik.

Í öðru lagi vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvort hann meti það svo að þessi viðbrögð íslenskra stjórnvalda muni hafa einhver áhrif á samskipti landanna varðandi aukna lögreglusamvinnu til skemmri og lengri tíma. Málið er aldeilis ekki þannig þegar við förum yfir gögnin að FBI hafi komið hingað í leyfisleysi því að það er ljóst að fyrirspurnir frá þeim lágu á borði innanríkisráðuneytisins í rúman mánuð áður en fulltrúunum var síðan heimilað að koma til landsins.

Síðan vil ég í þriðja lagi spyrja hæstv. ráðherra hvort hann sé sannfærður um að það hafi verið rétt skref, ef við hugsum um réttarhagsmuni drengsins sem um ræðir, að vísa íslenskum yfirvöldum (Forseti hringir.) frá. Mín skoðun er sú að samkvæmt íslenskum réttarfars- og sakamálalögum er það alveg ljóst að hagsmunum hans hefði verið betur borgið með því að hafa viðvist og viðveru íslenskra löggæslumanna (Forseti hringir.) og saksóknara við yfirheyrslur á honum en ekki vísa þeim frá málinu.