141. löggjafarþing — 77. fundur,  11. feb. 2013.

olíuleit á Drekasvæðinu.

[15:44]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Það er ástæða til að fagna því að gefin hafa verið út sérleyfi til rannsókna og vinnslu á kolvetni til tveggja aðila á hinu svokallaða Drekasvæði norðaustur af Íslandi. Þótt ástæða sé til að fagna því er líka nauðsynlegt að slá þann varnagla að rannsóknir á svæðinu fela ekki í sér neina fullvissu um að vel takist til og að þar finnist nægilegt magn af olíu til að vinna megi með arðbærum hætti. Engu að síður er um að ræða fyrsta skrefið í þá átt að komast að hinu sanna og staðfesta hvort um sé að ræða vinnanlega olíu, sem gæti auðvitað styrkt efnahagslíf okkar.

Það hefur verið óvænt að heyra úrtöluraddir þegar kemur að þessu verkefni en svona er heimurinn skrýtinn. Þegar fréttir berast af því að okkur að kostnaðarlausu séu erlendir og íslenskir aðilar tilbúnir að leggja marga milljarða í olíuleit í lögsögu okkar eru háværustu viðbrögðin að heiman mótmæli og hörð gagnrýni á stjórnvöld fyrir að heimila slíkt. Það er auðvitað stórfurðulegt en svo sem í ætt við margt annað sem veður uppi í samfélaginu þessi missirin. Ætli þetta tíðkist í öðrum löndum? Varla. Eða standa harðar og víðtækar deilur um það í Noregi að nýta auðlindirnar í lögsögu landsins? Hafa Bretar harmað þann hlut sinn að eiga aðgang að olíu í Norðursjónum? Auðvitað ekki. Olíuvinnsla er ábatasöm og hefur hvarvetna þar sem hún hefur verið stunduð styrkt efnahag þeirra þjóða sem búa að slíkum auðlindum.

Hvort sem okkur líkar það betur eða verr er heimurinn háður jarðefnaorku um fyrirsjáanlega framtíð. Það á til dæmis við um okkur Íslendinga og er því mjög langsótt að við ætlum einir þjóða að slá frá okkur þann möguleika að nýta þessar orkuauðlindir verði þær á annað borð finnanlegar í nægilegu magni og vinnanlegar með arðbærum hætti.

Sú ákvörðun sem nú hefur verið tekin er í rauninni tvíþætt. Í fyrsta lagi er það ákvörðun um rannsóknir. Þær rannsóknir munu taka býsna mörg ár. Í fyrsta lagi þarf að fara fram greining á fyrirliggjandi gögnum. Því næst fara fram bergmálsmælingar og sýnasöfnun. Þá hefjast boranir á rannsóknarholum og að þeim rannsóknum loknum, sem getur verið innan áratugar, geta menn síðan tekið ákvörðun um hvort vinnsla hefjist. Þetta er með öðrum orðum mjög kostnaðarsamt ferli og í því felst mikil fjárhagsleg áhætta. Þá áhættu taka þeir sem standa fyrir rannsóknunum og leggja í það verkefni milljarða króna. Það gefur því augaleið að enginn er tilbúinn til slíks nema hafa um það fulla vissu að geta hafið vinnslu verði til þess fjárhagslegar forsendur.

Það er misskilningur sem hefur mátt greina í umræðunni að einungis hafi verið tekin ákvörðun um rannsóknir. Sú ákvörðun sem var kynnt í ársbyrjun felur í sér fyrirheit til þeirra sem hafa fengið sérleyfin um að vinna olíu verði það á annað borð mögulegt. Væri það ekki gert sjá auðvitað allir að ekki nokkur maður léti sér til hugar koma að leggja út í stórkostlegan kostnað við rannsóknir, nóg er nú áhættan samt. Reynsla annarra þjóða segir okkur til dæmis að oft þarf að bora mikinn fjölda borhola áður en niðurstaða fæst. Það gefur þó augaleið að stjórnvöld hverju sinni geta sett tiltekin viðmið og reglur um hvernig verði staðið að vinnslunni.

Í okkar tilfelli er norskum reglum fylgt enda eru þær byggðar á áratugareynslu Norðmanna og viðmiðum um umhverfismál sem eru í samræmi við íslensk sjónarmið í þeim efnum. Þó skal tekið fram að þær reglur sem við byggjum á eru í rauninni enn þá strangari en þær reglur sem Norðmenn fylgja. Stjórnvöld hverju sinni geta auðvitað sett reglur um fyrirkomulag vinnslunnar með tilliti til öryggis starfsfólks og umhverfisins í samræmi við lög og reglur á hverjum tíma. Þær kröfur verða þó vitaskuld að vera málefnalegar og geta þess vegna ekki haft þann tilgang að hindra eða koma í veg fyrir vinnslu. Þá væru þær ekki málefnalegar né í samræmi við stjórnsýslureglur og meðalhófsregluna.

Ég vil vekja athygli á því og árétta það sem hefur komið fram að ætlunin er að greitt verði gjald fyrir þessa nýtingu. Það er í samræmi við stefnu okkar varðandi nýtingu á sameiginlegum auðlindum okkar. Það vekur að vísu athygli að gert er ráð fyrir því að greitt verði lægra gjald í þessu tilviki en við ætlum að innheimta vegna nýtingar á sjávarauðlindinni. Í því felst tiltekin stefnumótun og jákvæð yfirlýsing af hálfu stjórnvalda um olíuvinnslu í íslenskri lögsögu. Það mætti kannski segja að stjórnvöld séu að því leytinu jákvæðari í garð olíuvinnslu en nýtingar sjávarauðlindar þótt ég ætli út af fyrir sig ekki að hafa um það fleiri orð.

Ég hef lagt nokkrar spurningar fyrir hæstv. ráðherra til undirbúnings umræðunnar sem eru, með leyfi virðulegs forseta:

Hvert er markmiðið með þeirri olíuleit sem hafa verið gefin leyfi til?

Hver er kostnaður eða ávinningur okkar, þar með talið ríkissjóðs, vegna þessa?

Hver er staða þeirra sem nú hafa fengið leyfi til olíuleitar varðandi mögulegt framhald við olíuvinnslu ef rannsóknir og leit gefa tilefni til slíks?

Gott væri síðan að fá einhvers konar bráðabirgðamat á efnahagslegum og atvinnulegum ávinningi á næstu árum á meðan olíuleit stendur.