141. löggjafarþing — 77. fundur,  11. feb. 2013.

olíuleit á Drekasvæðinu.

[15:57]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Það er ekki ný ákvörðun að kanna hvort olía finnist á íslensku hafsvæði í vinnanlegu magni. Lögin eru frá 2001 eins og hæstv. ráðherra þuldi hér áður og eðlilegt að það sé kannað. Lögin eru yfirgripsmikil og eru um framkvæmd, leyfi og eignarhald. Þar er því til dæmis lýst yfir að íslenska ríkið sé eigandi þessarar auðlindar. Eftir að við höfum samþykkt nýja stjórnarskrá þurfum við að endurskoða þau lög og segja þar að íslenska þjóðin sé sá eigandi. Þar er auðvitað ekki tekið á öllum álitamálum og það eru ýmis framkvæmdaleg og pólitísk álitamál sem við þurfum að taka á. Vegna þess að landsfundi Samfylkingarinnar er nýlokið er rétt að segja frá því að þar tókum við þá ákvörðun að fara með snörpum en skilvirkum hætti í að líta yfir þessi álitamál og kanna þær spurningar sem er ósvarað um umhverfisáhrif, auðlindastjórnun, öryggismál og loftslagsstefnu Íslendinga sem þarf í sjálfu sér að vera klár og í samræmi við það orðspor, eða ímynd á nútímamáli, sem við viljum hafa þar.

Ég held að við þurfum að kanna þau mál í samfélaginu öllu, m.a. auðlindastjórnunina, kanna hvort þeim hagnaði sem Íslendingar kynnu að hafa af þessu er nægilega vel er fyrir komið. Þar kemur auðvitað til greina að ákveða að ráðstafa honum að einhverju leyti til að vinna gegn loftslagsvánni vegna þess samhengis sem málin eru í. Við þurfum að fara varlega í þeim skrefum og ef olía finnst þurfum við líka (Forseti hringir.) að íhuga hver nýtingartíminn er og hvernig sölu og ráðstöfun verður háttað í ljósi þeirra atriða sem ég nefndi (Forseti hringir.) áðan, ekki síst þess að Íslendingar haldi sínu góða orðspori í umhverfismálum og í loftslagsbaráttunni.