141. löggjafarþing — 77. fundur,  11. feb. 2013.

olíuleit á Drekasvæðinu.

[16:11]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Frú forseti. Vitaskuld er ánægjulegt ef auðlindum Íslendinga fjölgar. Tökum hér af öll tvímæli.

Þeir tveir aðilar sem hafa fengið sérleyfi til rannsókna, annars vegar til sjö ára og hins vegar tíu ára frá því 4. janúar sl., hafa forgangsrétt á vinnslu að uppfylltum ákveðnum kröfum íslenskra stjórnvalda og eftir atvikum Orkustofnunar. Vitaskuld þarf að uppfylla þær kröfur og þar þarf að hugsa yfir breitt svið. Við þurfum að fara með gát í þessum efnum. Þarna eru íslensk fiskimið eins og rakið hefur verið hér í pontu. Þarna er sú ímynd sem við viljum draga af norðurslóðum í húfi. Hafandi sagt þetta verðum við líka að horfa til reynslu nágrannaþjóða okkar af því að samþætta olíuvinnslu, ferðaþjónustu og sjávarútveg. Ekki verður annað séð en að Norðmenn hafi komist ágætlega frá þeim þremur samliggjandi þáttum á síðustu áratugum. Noregur er eitthvert vinsælasta ferðamannaland á norðurhveli jarðar, enda er þar margt að skoða, og ekki virðist raunin vera sú að olíuvinnsla hafi eyðilagt þá ímynd eða að sjávarútvegur og olíuvinnsla hafi ekki farið saman í því landi.

Það er afskaplega mikilvægt að vanda sig í þeim efnum þegar kemur að mörgum þáttum og ekki síst að sækjast eftir því að sú þekking sem verður til fyrir vikið vegna rannsókna og eftir atvikum olíuvinnslu sitji eftir í landinu. Samkeppni er mikil milli landa og það getur allt eins farið svo að ef við berðumst milli héraða hér á landi yrði þekkingin eftir úti í löndum en ekki hér heima. Þá væri mjög illa af stað farið. Þess vegna er það mikið kappsmál fyrir okkur Íslendinga (Forseti hringir.) að leggjast allir á eitt að ná þekkingunni inn í landið.