141. löggjafarþing — 77. fundur,  11. feb. 2013.

óbeinar auglýsingar hjá Ríkisútvarpinu.

425. mál
[16:29]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þm. Álfheiði Ingadóttur fyrir að taka upp auglýsingar á áfengi í sjónvarpi hjá Ríkisútvarpinu. Ég vek athygli á því að auglýsing var sýnd í lok síðasta árs þar sem var verið að auglýsa myndina Skyfall , James Bond auglýsing. Þar var verið að auglýsa Heineken léttöl. Ég hef minnst á þetta áður og ég ætla að gera það aftur. Í þessari auglýsingu var verið að auglýsa léttöl í sambærilegum umbúðum og sterka ölið er í. Það sést eiginlega enginn munur á þeim, umbúðirnar eru eins, og svo stendur með smáu letri neðst í auglýsingunni „léttöl“. Það var ákveðið að athuga með þetta léttöl og hringt í innflytjandann. Þar kom í ljós að þetta léttöl sem var auglýst var ekki til á markaði og hafði ekki verið til á markaðnum það árið. Það var greinilega verið að auglýsa sterkt öl. Þess vegna er brýnt að við tökum á þessari svokölluðu sniðgöngu laga með því að samþykkja lagafrumvarp (Forseti hringir.) sem hæstv. innanríkisráðherra hefur lagt fram. Því fyrr, því betra.