141. löggjafarþing — 77. fundur,  11. feb. 2013.

óbeinar auglýsingar hjá Ríkisútvarpinu.

425. mál
[16:30]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Þetta er svolítið endurtekið efni. Ég verð þá bara að endurtaka það sem ég sagði einmitt í þeirri umræðu sem hefur verið vísað til að ef ég ætti að velja á milli þess að horfa á einhvern bjór eða Daníel Craig mundi ég alltaf velja Daniel Craig, en það er önnur saga.

Ég undirstrika það sem ég hef sagt í umfjöllun um áfengisauglýsingar. Það hefði verið betra ef hæstv. ríkisstjórn hefði farið eftir niðurstöðu frá starfshópi sem hæstv. fyrrverandi fjármálaráðherra Steingrímur J. Sigfússon skipaði. Þar kom mjög skýrt fram frá þeim faghópi varðandi áfengi og áfengisauglýsingar að það ætti að móta og marka áfengisstefnu í landinu. Þessi starfshópur skilaði af sér árið 2010. En það er einhvern veginn eins og hæstv. innanríkisráðherra og þáverandi fjármálaráðherra hafi ekki beint talast við því að síðan kom innanríkisráðherra með allt öðruvísi frumvarp sem er engan veginn í samræmi við stefnu og niðurstöðu sem starfshópur þáverandi fjármálaráðherra lagði fram. Það hefði betur verið sett fram skýr stefna varðandi áfengi, (Forseti hringir.) þá hefðum við ekki þurft að tala um þann leik sem hér er varðandi (Forseti hringir.) óbeinar auglýsingar í sjónvarpi.